Íslensk nútímamálsorðabók. Nýir tímar, ný orðabók
Fyrirlesturinn fjallar um Íslenska nútímamálsorðabók. Um er að ræða nýja orðabók sem hefur um nokkurt skeið verið í vinnslu hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM) og er vinnan við hana langt á veg komin. Orðabókin er eingöngu birt á vefnum. Um er að ræða einsmálsorðabók og er hún aðeins önnur bókin þeirrar tegundar frá upphafi. Íslensk nútímamálsorðabók er ekki skyld hinni alþekktu Íslenskri orðabók, sem komið hefur út í mörgum útgáfum frá 1963 og var upphaflega nefnd Orðabók Menningarsjóðs.
Íslensk nútímamálsorðabók er búin til frá grunni eftir aldamótin síðustu. Efni hennar byggist að miklu leyti á íslensk-skandinavísku margmálaorðabókinni ISLEX sem einnig er á vegum SÁM. Við gerð þeirrar orðabókar var ljóst að safnast hafði mikið efni sem hægt var að nota sem grunn að lýsingu á íslensku máli eins og það er talað og ritað nú um stundir, og varð það kveikjan að verkinu.
Um er að ræða meðalstóra orðabók með um 50 þúsund uppflettiorðum. Áhersla er lögð á nútímamálið hvað snertir orðaforða og innihald, en þó er einnig að finna grundvallarorðaforða úr eldra máli og fornmáli, enda er gert ráð fyrir að skólanemendur og aðrir notendur geti nýtt sér orðabókina í tengslum við eldri texta.
Orðabók á vefnum hefur allt annan brag en prentað rit, og er leitast við að láta vefmiðilinn njóta sín. Öll beygjanleg orð (nafnorð, lýsingarorð, fornöfn og sagnir) hafa tengla í gagnagrunninn Beygingarlýsingu íslensk nútímamáls sem sýnir beygingardæmi orðsins í heild. Framburður allra uppflettiorða er í formi hljóðskráa og er því engin hljóðritun sýnd. Í orðabókinni er mikill fjöldi dæma og orðasambanda. Einnig er að finna upplýsingar um fallstjórn sagna og forsetninga og fleiri málfræðileg atriði. Í orðabókinni eru 3200 myndir, einkum af fyrirbærum í ríki náttúrunnar eins og plöntum og dýrum.
Öllum orðaforðanum hefur verið skipt upp í merkingarflokka sem eru um 600 talsins. Dæmi um slíka flokka eru dýr, gras, farartæki, húsbúnaður, tilfinning, vaxtarlag, augnlitur, og hreyfing. Mjög víða skarast flokkarnir svo að tiltekið orð tilheyrir fleiri en einum flokki. Þannig er t.d. orðið ‘grænkál’ bæði í flokkunum matur og gras og ‘lofthræðsla’ er í flokkunum ótti og tilfinning. Vinnan við orðabókina hefur að mestu leyti farið fram eftir merkingarflokkunum án tillits til staðsetningar orðanna innan stafrófsins.
Orðabókin er uppfærð reglulega, en það er vitaskuld mun einfaldara þegar rafrænt verk á í hlut. Ennfremur eru áætlanir uppi um að stækka orðabókina umtalsvert frá því sem nú er.
Ritstjórar orðabókarinnar eru Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir.
Íslensk nútímamálsorðabók er aðgengileg í gegnum vefgáttina málið.is og á eigin vefsíðu, islenskordabok.is.