Hljóðferli í tali tveggja til átta ára barna – þróun aldursbundinna viðmiða fyrir Málhljóðapróf ÞM
Málhljóðaröskun felur í sér að þróun málhljóða í tali barns er ekki í samræmi við það sem vænta má út frá aldri þess og þroska. Algengasta aðferðin við að greina málhljóðaröskun er með fyrirlögn framburðarprófa og þannig má leggja mat á hvort frávik í framburði barna séu aldurssvarandi eða hvort þörf sé á talþjálfun. Hægt er að styðjast við ýmsar greiningarleiðir til að greina framburðarfrávik. Hin svokallaða hljóðferlagreining (e. phonological process analysis) er ein þeirra. Þegar hljóðferlagreiningu er beitt er tal barna skoðað út frá ferlum sem fela í sér kerfisbundna hljóðbreytingu eða einföldun sem hefur áhrif á flokk hljóða eftir myndunarstað, myndunarhætti og atkvæðagerð. Hljóðferlagreining gerir talmeinafræðingum kleift að kortleggja hljóðkerfi barns og greina ákveðin mynstur í frávikum þess. Þessi mynstur, eða ferli, er síðan hægt að vinna markvisst með í talþjálfun í því skyni að gera framburð barnsins líkari framburði fullorðinna. Meistaraverkefni, sem unnið var við talmeinafræðideild Háskóla Íslands fyrr á árinu, hafði það að markmiði að vinna úr stöðlunargögnum íslensks framburðarprófs, Málhljóðaprófs ÞM, með tilliti til hljóðferlagreiningar. Um leið voru stigin fyrstu skrefin í átt að þróun aldursbundinna viðmiða um hljóðferli í tali íslenskra barna á aldrinum tveggja til átta ára (2;6-7;11). Með því að hafa nákvæm viðmið um hljóðferli í tali íslenskra barna má betur greina hvaða frávik teljast aldurssvarandi og hvaða frávik benda til röskunar. Með hljóðferlagreiningu má þannig leggja mat á hvort málhljóðaröskun sé til staðar eða ekki.
Alls voru hljóðferli greind í tali 433 barna á aldrinum 2;6-7;11 ára. Úrtakinu var skipt í níu aldurshópa svo unnt væri að kanna þróun og breytileika virkra hljóðferla eftir aldri. Hljóðferli var metið virkt ef það kom fyrir þrisvar sinnum eða oftar í tali barns. Í einstaka tilvikum reyndust tækifæri til myndunar ákveðinna hljóða og hljóðferla takmörkuð og því var ekki hægt að styðjast við sömu viðmið.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að jafnaði lækkandi hlutfall hljóðferla í takt við aukinn aldur barna. Hljóðferli voru hvoru tveggja notuð í minna mæli auk þess sem þeim fækkaði eftir því sem börnin urðu eldri. Notkun einstakra hljóðferla jókst þó með auknum aldri vegna þroskabreytinga í hljóðkerfi barna. Munur á meðaltali hljóðferla mældist marktækur á milli yngsta og elsta aldurshóps rannsóknarinnar. Þá mældist yfirleitt marktækur munur á milli aldurshópa, nema þeirra sem voru samliggjandi. Rjáfuráhrifa tók að gæta hjá elstu aldurshópunum. Það verður að teljast eðlilegt í ljósi þess að eftir því sem börn eldast verður minni breytileiki í hljóðkerfi þeirra, frávikin verða færri og framburðurinn tekur að líkjast framburði fullorðinna. Skiptihljóðun reyndist vera algengasti flokkur hljóðferla í tali barna í öllum aldursflokkum. Því næst kom breyting á atkvæðagerð. Slík ferli voru algengust meðal yngri barna en með auknum aldri dró úr notkun þeirra. Loks má nefna samlögun, en hún kom nánast eingöngu fram í tali yngsta aldursþriðjungsins.
Með rannsókn þessari hefur tal íslenskra barna á svo breiðu aldursbili í fyrsta sinn verið greint með hljóðferlagreiningu. Niðurstöður greiningarinnar gefa innsýn inn í hljóðkerfi íslenskra barna og þróun þess og því hefur hún bæði klínískt og fræðilegt gildi.