26. Rask-ráðstefnan laugardaginn 28. janúar 2012 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins
Dagskrá
10:00 Ari Páll Kristinsson: „Vjer erum í hættu staddir“. Íslensk málhugmyndafræði andspænis hernáminu 1940
10:30 Þorsteinn G. Indriðason: Frasasamsetningar
11:00 Kristín M. Jóhannsdóttir: Lýsingarháttur nútíðar í framvindumerkingu
HÁDEGISHLÉ
12:30 Þórhallur Eyþórsson: „Gáttir allar áður gangi fram…“. Kjarni og brennidepill í Hávamálum
13:00 Katrín Axelsdóttir: Fyrirbærið aukning og fornöfn í íslensku
13:30 Guðrún Þórhallsdóttir: Veik þátíð í málsögu og máltöku
KAFFIHLÉ
14:30 Hrafnhildur Ragnarsdóttir: Orðaforði, málfræðiþekking og hlustunarskilningur leikskólabarna: Framfarir, einstaklingsmunur og innbyrðis tengsl á aldrinum fjögra til fimm ára
15:00 Rannveig Sverrisdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir: Venjulegar sagnir og áttbeygðar sagnir. Um kerfisbundna eiginleika sagna í íslenska táknmálinu
15:30 Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson: Orðaröð í íslenska táknmálinu
Útdrættir:
Ari Páll Kristinsson: „Vjer erum í hættu staddir.“ Íslensk málhugmyndafræði andspænis hernáminu 1940
Um það leyti sem Bretar hernámu Ísland var hin þjóðernistengda málhugmyndafræði afskaplega sýnileg í landinu, í ákafri (innri og ytri) málhreinsun og í verulegri tortryggni gagnvart erlendum menningaráhrifum. Í fyrirlestrinum verða m.a. rakin dæmi úr opinberri umræðu fyrstu her¬-náms¬¬árin þar sem vikið er að íslenskri tungu og rýnt í hvað þau birta um viðhorf til íslensks máls og um þá „menningarlegu andspyrnuhreyfingu” sem bandamenn mættu á Íslandi. Í titlinum er vitnað til yfirskriftar áramótagreinar Alexanders Jóhannessonar í janúar 1941. Í grein hans segir m.a.: ”Vjer Íslendingar erum nú í meiri hættu staddir en flestar aðrar þjóðir. Annar hver maður í landinu er erlendur.”
10:30-11:00: Þorsteinn G. Indriðason: Frasasamsetningar
Í erindinu ætla ég að ræða svonefndar frasasamsetningar (e. phrasal compounds), þ.e. þegar fyrri liður samsetningar getur verið setningaliður eða jafnvel heil setning, sbr. dæmi eins og klippa-líma-verkefni, þúsund-ára-hátíð, á-tali-sónn og Hann brosti þessu ég-er-bara-einn-af-ykkur-strákunum-brosi. Hvernig best er hægt að lýsa þessum dæmum veltur á því hvernig við sjáum fyrir okkur samband orðhlutafræðinnar (orðasafnsins) og setningafræðinnar (sjá t.d. Scalise 1986 og Aronoff og Anchen 1998). Til þess að gera grein fyrir sumum tegundum frasa-samsetninga hefur Sato (2010) lagt til að ákveðið ’flæði’ sé á milli orðhlutafræðinnar og setninga¬-fræðinnar sem geri orðhlutafræðireglum kleift að ná í setningaliði eða heilar setningar úr setningafræðinni til orðmyndunar. Bresnan og Mchombo (1995) halda því hins vegar fram að slíkt flæði fyrirfinnist ekki. Þau líta á fyrri liðina sem stirðnaða frasa sem geymdir séu í orðasafni og fengnir þaðan til þess að mynda samsett orð.
Ekki hefur verið mikið fjallað um þetta fyrirbæri í íslensku og ekki er að finna neina heildstæða úttekt á því. Kristín Bjarnadóttir (1996:171-178) hefur rætt einna ítarlegast um þetta. Í erindinu mun ég tína til ýmis dæmi um þessa fyrri liði bæði úr íslensku og norsku og jafnframt reyna að meta gildi hugmyndanna hér að ofan um samband orðhlutafræði (orðasafns) og setningafræði í ljósi þeirra.
Heimildir
- Aronoff, Mark og Frank Anchen. 1998. Morphology and the Lexicon: Lexicalization and Productivity. I: Spencer, Andrew og Arnold Zwicky (ritstj.): Handbook of Morphology. 237-247. Oxford: Blackwell Publishers, ltd.
- Bresnan, Joan og S. Mchombo. 1995. The lexical integrity principle: evidence from Bantu. Natural Language and Linguistic Theory 13:181-254.
- Kristín Bjarnadóttir. 1996. Afleiðsla og samsetning í generatífri málfræði og greining á íslenskum gögnum. Ritgerð til kandídatsprófs í íslenskri málfræði, Háskóla Íslands, Reykjavík.
- Sato, Yosuke. 2010. Complex phrase structures within morphological words: Evidence from English and Indonesian. Lingua 129:379-497.
- Scalise, Sergio. 1986. Generative Morphology. Dordrecht: Foris.
Kristín M. Jóhannsdóttir: Lýsingarháttur nútíðar í framvindumerkingu
Fjölmörg dæmi má finna í íslensku þar sem lýsingarháttur nútíðar er notaður fyrir síendurtekna atburði: ‘Jón er alltaf borðandi’. Í slíkum setningum fáum við nokkurs konar venjubundið framvinduhorf, svipað og í framvindusetningum eins og ‘Jón er alltaf að borða’. Hin endurtekna merking lýsingarháttarins í þessum setningum er þó ekki hluti af sannleiksgildi háttarins eða byggð inn í hann, heldur aðeins forsenda sem gengið er út frá vegna samhengis. Í slíkum tilfellum stendur lýsingarhátturinn nær alltaf með tíðniatviksorðum eða öðrum atviksliðum sem segja til um hversu algengur atburðurinn er.
Þórhallur Eyþórsson: „Gáttir allar áður gangi fram…“ Kjarni og brennidepill í Hávamálum
Eddukvæði undir ljóðahætti hafa formleg einkenni sem greina þau frá öðrum fornum kveðskap. Þessi einkenni stafa af samspili ólíkra þátta, bæði bragfræðilegra og málfræðilegra. Hér verður sjónum beint að setningarstöðu orða og setningarliða í Hávamálum og sambandi hennar við bragstöðu, stuðlun, málfræðihlutverk og merkingu. Einkum verður fjallað um orð sem standa fremst í setningu og sett verður fram greining á merkingarlegri vísun þeirra eftir því hvort um er að ræða kjarna (topic) eða brennidepil (focus). Því verður haldið fram að formleg einkenni ljóðaháttar séu samofin inntaki þessa kveðskapar. Við rannsóknina var stuðst við nýjan gagnagrunn um forníslenskan kveðskap, Greini skáldskapar.
Katrín Axelsdóttir: Fyrirbærið aukning og fornöfn í íslensku
Hugtakið „affix pleonasm“ er ekki nýtt (upphaflega frá Paul 1920). Það hefur þó líklega ekki verið íslenskað en þetta mætti kalla aukningu orðmyndar eða einfaldlega aukningu. Það hefur verið notað til að lýsa „undarlegum“ eða „óvæntum“ orðmyndum á borð við ensku fleirtölumyndirnar children, childrens og feets og latneska nafnháttinn essere (áður esse). Bent hefur verið á að „millistigsmyndir“ (e. intermediate hybrid forms) orða sem ganga í gegnum sætaskipti (e. reordering of morphemes), t.d. fornafnsmyndin hverngan, séu af sama meiði (Haspelmath 1993). Í fyrirlestrinum verður rætt um hvernig hugtakið aukning hefur verið skilgreint og hvað einkenni fyrirbærin. Þá verður fjallað um nokkrar íslenskar fornafnsmyndir sem eru dæmi um auknar orðmyndir og rætt af hverju slíkar myndir komu upp þegar önnur og líklega einfaldari leið var fær, leið venjulegrar áhrifsbreytingar (útjöfnunar).
Guðrún Þórhallsdóttir: Veik þátíð í málsögu og máltöku
Í íslenskri málsögu hafa ýmsar sterkar sagnir tekið upp veika þátíð. Sumar hafa gengið til liðs við virkasta flokk veikra sagna, t.d. bjarga — þt. bjargaði, en aðrar tekið upp sjaldgæfari veika beygingu, t.d. fela — þt. faldi, þiggja — þt. þáði. Í fyrirlestrinum verður rýnt í eðli slíkra áhrifsbreytinga og þær bornar saman við niðurstöður rannsókna á máltöku barna á Íslandi og í Bandaríkjunum.
Hrafnhildur Ragnarsdóttir: Orðaforði, málfræðiþekking og hlustunarskilningur leikskólabarna: Framfarir, einstaklingsmunur og innbyrðis tengsl á aldrinum fjögra til fimm ára
Að barn öðlist góðan málþroska er mikilvægt markmið í sjálfu sér, en auk þess er tungumálið mikilvægasta verkfæri hugans og mikill áhrifavaldur í alhliða þroska barna. Síðast en ekki síst er málþroski barna á leikskólaaldri undirstaða lestrarnáms á fyrstu skólaárunum og lesskilnings síðar.
Í fyrirlestrinum verður greint frá rannsókn á rúmlega 100 4ra ára börnum sem fylgt var eftir í þrjú ár með árlegum mælingum á orðaforða, málfræðibeyginum, skilningi á orðræðu í samfelldu máli (frásögn) og fleiri þroskaþáttum. Niðurstöður tölfræðigreiningar sýndu marktækar framfarir á öllum málþroskamælingunum milli ára en jafnframt gríðarmikinn einstaklingsmun. Sterk tengsl voru á milli allra málþroskamælinganna innbyrðis bæði árin. Orðaforði og málfræðiþekking 4ra ára spáðu marktækt fyrir um hlustunarskilning við fimm ára aldur en stafaþekking og skor á HLJÓM ekki. Stafaþekking og málfræðipróf spáðu hins vegar fyrir um dreifingu á HLJÓM – orðaforði og hlustunarskilningur ekki. Niðurstöður samræmast þannig einfalda lestrarlíkaninu sem gerir ráð fyrir að undirstöður umskráningar og lesskilnings séu aðskildar. Báðar eru í örri þróun á leikskólaárunum, hvor eftir sinni leið. Mikill munur er á færni einstakra barna í þessum lykilþáttum og mikilvægt að hafa hugfast að ólíkar kennsluaðferðir efla undirstöður umskráningar annars vegar og lesskilnings hins vegar.
Rannveig Sverrisdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir: Venjulegar sagnir og áttbeygðar sagnir. Um kerfisbundna eiginleika sagna í íslenska táknmálinu
Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir þeim þremur tegundum sagna sem finnast í langflestum táknmálum sem rannsökuð hafa verið til þessa. Þessar þrjár tegundir nefnast venjulegar sagnir, áttbeygðar sagnir og próformasagnir. Gefinn verður sérstakur gaumur að venjulegum og áttbeygðum sögnum og fjallað verður um niðurstöður nýlegrar M.A. rannsóknar á kerfisbundnum eiginleikum þessara tveggja tegunda sagna. Þá verður vikið að látbrigðum sem fylgja þessum tveimur tegundum sagna og hvernig þau geta gefið til kynna af hvorri tegundinni tiltekin sögn er. Rætt verður um munnhreyfingar sem fylgja sögnunum og það hvort látbrigði, eins og hreyfingar höfuðs og augnatillit, geti sýnt samræmi.
Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson: Orðaröð í íslenska táknmálinu
Í þessum fyrirlestri verður fjallað um orðaröð í íslenska táknmálinu en hún hefur hingað til verið nánast alveg ókannað svið. Rannsóknir sýna að orðaröð er yfirleitt ekki jafnföst í táknmálum og raddmálum; þannig hafa mörg táknmál bæði FSA (frumlag-sögn-andlag) og FAS (frumlag-andlag -sögn) sem mögulega röð þótt flest táknmál virðist reyndar hafa aðra röðina sem grundvallarorðaröð. Í íslenska táknmálinu er erfitt að skera úr um grundvallarorðaröð en almennt virðist FSA algengari röð. Í fyrirlestrinum verður einnig fjallað um setningar með spurnarlið eða kjarnalið á undan frumlagi, hvort sem kjarnaliðurinn er grunnmyndaður á vinstra svæði setningarinnar eða færður þangað með kjarnafærslu.