Málvísindakaffi

Íslenska málfræðifélagið stendur fyrir tiltölulega óformlegum fyrirlestraröðum sem nefnast Málvísindakaffi. Þessir viðburðir eru haldnir óreglulega yfir misserið í hádeginu á föstudögum. Tilkynningar eru sendar á póstlista félagsins og settar í hóp félagsins á Facebook.


17. október 2025

Eftir að lenda undir skoraði liðið þrjú mörk í röð: Merking en ekki form lokins horfs — Einar Freyr Sigurðsson og Ingunn Hreinberg Indriðadóttir

Næsta Málvísindakaffi verður haldið föstudaginn 17. október klukkan 12-13 í stofu 309 í Árnagarði. Þá munu Einar Freyr Sigurðsson og Ingunn Hreinberg Indriðadóttir flytja erindi um lokið horf með hjálparsögninni hafa (og án hennar).

Útdráttur
Í íslensku er lokið horf gjarnan táknað með hjálparsögninni hafa og lýsingarhætti þátíðar (eða sagnbót).

(1) a. Ég hef aldrei séð annað eins.

b. Þegar ég hafði talið upp í hundrað fór ég að leita.

c. Eftir að hafa lent undir skoraði liðið þrjú mörk í röð.

Nokkuð hefur hins vegar borið á því að sögninni hafa sé sleppt í nafnháttarsetningum sem fylgja eftir í dæmum eins og (1c). Þetta er sýnt í (2).

(2) Eftir að lenda undir skoraði liðið þrjú mörk í röð.

Þetta gerist hins vegar ekki í dæmum á borð við (1b), sjá setninguna í (3):

(3) Þegar ég taldi upp í hundrað fór ég að leita.

Setningin í (3) merkir ekki það sama og setningin í (1b). Hins vegar virðist (2) merkja það sama og (1c). Þannig virðist (2) hafa merkingu lokins horf án þess að hafa form þess. Við veltum fyrir okkur hvers vegna svo sé og athugum hvort þetta sé algilt um setningar af þessu tagi. Við skoðum einnig fleiri gerðir af nafnháttarsetningum sem hafa lokið horf og athugum hvort og hvenær hægt er að sleppa hjálparsögninni hafa án þess að merkingin breytist.

Um höfunda
Einar Freyr Sigurðsson er rannsóknardósent á íslenskusviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Ingunn Hreinberg Indriðadóttir er aðjunkt í íslensku og málvísindum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.


10. október 2025

Interpretation of Icelandic svo-að-clauses — Xindan Xu

Næsta Málvísindakaffi verður haldið föstudaginn 10. október klukkan 12-13 í stofu 309 í Árnagarði. Þá mun Xindan Xu flytja erindi um svo að-setningar í íslensku. Erindið verður flutt á ensku.

Útdráttur
Similar to English so-that-clauses, the Icelandic conjunction svo (að) can be used to introduce both a purpose (1a) and a result clause (1b):

(1) Thráinsson (2007, 406)
a. Ég lokaði hliðinu svo að hestarnir kæmust (sub) ekki inn
(purpose clause)

b. Ég lokaði hliðinu svo að hestarnir komust (ind) ekki inn.
(result clause)

Icelandic purpose and result clauses seemingly have very similar surface structure, and sometimes can only be distinguished by the use of verbal mood, cf. (1a and 1b). Recent literature (Badan & Haegeman, 2022; Frey, 2012; Haegeman, 2003) indicates that some adverbial clauses have a close relationship with the host clause while others have a more peripheral relationship with it. Very little has been explored regarding the interpretive and syntactic differences of Icelandic adverbial clauses, especially for purpose and result clauses. In this talk, I will present some preliminary observations about the interpretation of Icelandic svo-að-clauses and what implications they might have for their syntactic analysis.

Um fyrirlesara
Xindan Xu is currently studying for a PhD in Icelandic Linguistics at the University of Iceland. Prior to this, she worked in the Language Technology Lab at the University of Iceland for over 2 years. She graduated with a MA in Icelandic Linguistics (2020) and a BA in Icelandic as a Second Language (2016).


3. október 2025  *FELLUR NIÐUR*
Orðræðuögnin heyrðu og hlutverk hennar í íslenskum samtölum – Ása Jónsdóttir

Af óviðráðanlegum orsökum fellur Málvísindakaffi niður að þessu sinni.

Erindi Ásu verður á dagskrá í Málvísindakaffi síðar. Í staðinn vekjum við athygli félaga okkar á Menntakviku sem haldin er í Sögu. Í dagskránni er að finna ýmis erindi sem tengjast meðal annars máltöku og málþroska barna, fjöltyngi og tungumálakunnáttu: https://menntakvika.hi.is/


26. september 2025
Hvernig minnnkum við skaðann af fordómafullri umræðu? — Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Næsta Málvísindakaffi verður haldið föstudaginn 26. september klukkan 12-13 í stofu 309 í Árnagarði. Þá mun Þorbjörg Þorvaldsdóttir flytja erindi um gagnræðu sem skaðaminnkandi nálgun á fordómafulla umræðu.

Útdráttur 
Í þessu erindi er sagt frá gagnræðuverkefni Samtakanna ‘78, sem hefur staðið frá árinu 2023. Gagnræða (e. counterspeech) felur í sér skaðaminnkandi nálgun á útbreiðslu hatursorðræðu og sk. hættulegrar orðræðu, og er í reynd aðferð við að taka með yfirveguðum hætti þátt í umræðu um hinsegin málefni. Farið verður yfir fræðilegan bakgrunn verkefnisins og helstu hugtök auk grunnatriða í gagnræðu.

Um fyrirlesarann 
Þorbjörg Þorvaldsdóttir er samskipta- og kynningarstjóri Samtakanna ‘78. Hún lauk BA-prófi í almennum málvísindum frá HÍ 2015, MA-prófi í málvísindum frá háskólanum í Leiden árið 2017 og viðbótardiplómu í íslenskukennslu árið 2022.

 


19. september 2025
Má segja svona? Sjálfvirk greining á óæskilegri orðræðu — Steinunn Rut Friðriksdóttir

Næsta Málvísindakaffi verður haldið föstudaginn 19. september klukkan 12 – 13 í stofu 309 í Árnagarði. Þá mun Steinunn Rut Friðriksdóttir flytja erindi um sjálfvirka greiningu á óæskilegri orðræðu.

Útdráttur
Hvernig getum við greint fordóma, dónaskap og aðra óæskilega orðræðu hjá okkur sjálfum og getur máltækni hjálpað okkur að spegla tungumálið okkar? Í erindinu verður frumgerð nýs íslensks veftóls kynnt þar sem fínstilltu NER-líkani er beitt til að greina orð og orðasambönd sem tengjast óæskilegri orðræðu, allt frá blótsyrðum og persónulegum árásum til mismununar á grundvelli kyns, trúar eða uppruna. Verkefnið byggir á orðasafni með yfir 2.000 orðum og orðasamböndum sem flokkuð eru í 14 félagslega þætti, s.s. kvenfyrirlitningu, hinsegin fordóma, fordóma gagnvart fólki með vímuefnavanda, blótsyrði og fleiri flokka. Orðasafnið var notað til að merkja sjálfvirkt ýmsa texta úr samfélagsmiðla- og fréttamálheildum Risamálheildarinnar. Þannig urðu til þjálfunargögn sem nýtt voru til að þróa og prófa þrjú BERT-líkön. Orðasafnið, þjálfunargögnin og líkönin eru öll aðgengileg í opnum aðgangi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um tilgang og takmarkanir aðferðafræðinnar, virkni veftólsins sýnd og rætt hvernig slíkt verkfæri getur nýst til að auka vitund íslenskra málhafa um skaðlega orðræðu.

Um fyrirlesara
Steinunn Rut Friðriksdóttir er doktorsnemi við tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Rannsókn hennar snýr að því að greina birtingarmyndir fordóma í íslenskumælandi mállíkönum og hvort hægt er að beita þessum líkönum til þess að greina fordóma í íslenskum textum

 


12. september 2025
Birtingarmyndir fyrstu stiga Alzheimersjúkdóms í tali og máli — Iris Edda Nowenstein

Málvísindakaffi hefur göngu sína á ný föstudaginn 12. september klukkan 12 – 13 í stofu 309 í Árnagarði. Þá mun Iris Edda Nowenstein flytja erindi um birtingarmyndir fyrstu stiga Alzheimersjúkdóms í tali og máli.

Útdráttur
Þekkt hefur verið um töluvert skeið að fyrstu stig Alzheimersjúkdóms geta orsakað breytingar í tal- og málhegðun, jafnvel áður en tekið er eftir sjúkdómseinkennum. Þetta hefur m.a. birst í rannsóknum á síðustu verkum rithöfunda sem síðar greindust með Alzheimer, t.a.m. í athugun á Jackson’s Dilemma eftir Iris Murdoch sem leiddi í ljós notkun á færri og algengari orðum miðað við eldri verk.

Miklar framfarir í máltækni undanfarinn áratug eða svo hafa leitt af sér hraða aukningu í rannsóknum á þessu sviði klínískra málvísinda, m.a. út frá sjónarmiðum um hagnýtingu: Sýnt hefur verið fram á að hægt er að nýta máltæknitól, þ. á m. á sviði gervigreindar, til að mæla sjálfvirkt gildi í tali og máli fólks sem gætu bent til taugahrörnunarsjúkdóma. Slíkar aðferðir hafa ýmsa kosti í för með sér: Þær eru ódýrar, krefjast ekki inngrips og gera heilbrigðisstarfsfólki mögulega kleift að fylgjast með gangi sjúkdóma og árangri meðferða, t.a.m. í rannsóknum á virkni nýrra lyfja. Fjöldi fyrirtækja þróar nú vörur á þessu sviði heilbrigðismáltækni en bæði rannsóknirnar og tólin sem byggja á þeim miða fyrst og fremst við ensku. Slík einsleitni getur bæði valdið skekkju í niðurstöðum og hindrað aðgengi að heilbrigðismáltæknilausnum í smærri málsamfélögum.

Í erindinu verður sagt frá viðleitni til að tryggja að íslenskt málsamfélag dragist ekki aftur úr á þessu sviði, m.a. með stofnun Íslenska málsýnabankans og rannsóknum á málsýnum íslenskumælandi fólks með væga vitræna skerðingu og væga heilabilun af völdum Alzheimersjúkdóms. Lögð verður áhersla á birtingarmyndir fyrstu stiga Alzheimersjúkdóms í íslenskum málsýnum og niðurstöður bornar saman við bæði ensk og kóresk gagnasöfn.

Um fyrirlesara
Iris Edda Nowenstein er lektor í íslenskri málfræði og máltækni við Háskóla Íslands og talmeinafræðingur á Landspítala.