Einar Freyr Sigurðsson

Frásagnarlist barna og notkun tíða

Ég skoða samtöl tvíburasystra í hlutverkaleik og greini hvernig frásögninni og leik stelpnanna vindur fram. Dæmi um slíkt samtal er sýnt hér fyrir neðan en þá eru systurnar sex og hálfs árs.

Sunneva: En Svava, hver átti að passa litla barnið? Hún þurfti að fara […]

Svava: Sunneva, þarna fór hún ekkert […]

Sunneva: Svava, má ég leika hana?

Svava: Uhum.

Sunneva: Þú veist að passa hana mjög vel og ekki bulla.

Svava: [Býr til barnahljóð]

Sunneva: Hey, litla barn, sjáðu þetta. […]

Svava: [syngur og segir svo:] Ólafur, þegar hún syngur þetta, þá vill hún fá epli, nei, þá vill hún fá appelsínu.

Sunneva: Og svo skar hann appelsínu. Hérna. Svava, beit hún í hendina hans?

Svava: Já,

Sunneva: En Svava, hendin hans óx aftur. Fannst henni fyndið þegar höndin óx aftur?

Í fyrirlestrinum staldra ég einkum við notkun nútíðar og þátíðar. Þegar systurnar ræða sín hlutverk (má ég leika hana?) eða leika tilteknar persónur (Ólafur, þegar hún syngur þetta, þá vill hún fá epli) nota þær nútíð en um leið og þær ræða framvinduna – stundum sem eins konar sögumenn (Og svo skar hann appelsínu) – skipta þær í þátíð. Ég athuga frekar hversu kerfisbundið þetta er í ýmsum upptökum af leik stelpnanna.