Helga Hilmisdóttir

Ensk áhrif í hlaðvörpum – pragmatísk aðkomuorð á Norðurlöndum 

Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að orðaforðanum í íslenskum og norrænum hlaðvörpum, sér í lagi orðum sem telja má til pragmatískra aðkomuorða (e. pragmatic borrowings). Pragmatísk aðkomuorð hafa verið skilgreind sem orð og frasar sem fengin eru að láni úr öðrum máli og gegna ákveðnum hlutverkum í samtölum eins og t.d. að sýna viðhorf mælanda til viðmælenda eða til að gefa til kynna hvernig segðir falla að því sem áður hefur komið fram í samtalinu  (Andersen 2014, Hilmisdóttir, Huhtamäki og Karlsson 2025). Sem dæmi um pragmatísk aðkomuorð sem oft heyrast í óformlegum samtölum á íslensku má nefna blótsyrði (shit og damn), orðræðuagnir (by the waybasically, what), kurteisisfrasa (plís, sorrí), kveðjur (luv ya, see ya)  og  ávörp (dude, girl, bruh). Eins og rannsóknir hafa sýnt er oft flókið samspil á milli slíkra aðkomuorða og innlendra orða sem eiga sér langa sögu í málinu (sjá t.d. Peterson og Vaattovaara 2017, Helgu Hilmisdóttur 2025). 

Rannsóknin er liður í norrænu samstarfsverkefni, Pragmatic borrowing in Scandinavia (PLIS), sem styrkt var af NordForsk (2020–2022) og síðan Nordplus språk (2024–2026). Tilgangur verkefnisins er að bera saman pragmatísk aðkomuorð í tungumálum sem töluð eru á Norðurlöndum. Safnað hefur verið saman 10 tímum að hljóðrituðu efni á hverju tungumáli fyrir sig, þ.e. dönsku, finnsku, norsku, íslensku, finnlandssænsku og sænsku, eða samtals um 60 klukkustundum af efni. Við efnisöflun var hugað að drefingu á milli aldurhópa og kynja. Samtölin voru skráð í skráningarforritið ELAN og ætlunin er að koma þeim fyrir í sameiginlegum gagnagrunni á vegum finnska málbankans.  

Tilgangur norrænu rannsóknarinnar er að bera saman notkun pragmatískra aðkomuorða í norðurlandamálum. Ætlunin er að skoða hvaða orð eru mest notuð og hvort orðaforðinn sé að einhverju leyti sameiginlegur og þá á hvaða hátt. Einnig verður skoðað hvort og hvernig aðkomuorðin aðlagast viðtökumálunum og hvort greina megi mun á notkun á milli tungumála og málsvæða. Í þessum fyrirlestri verður þó sjónum einkum beint að íslenska efninu. Fjallað verður um söfnun og skráningu efnis og sagt frá helstu álitaefnum sem koma upp þegar verið er að undirbúa leitarbæran talmálsgagnagrunn með mörgum tungumálum. Einnig verður sagt frá fyrstu niðurstöðum varðandi íslenska efnið. Hvaða aðkomuorð eru algengust og hvað einkennir þau? Að lokum verða tekin fyrir einstök dæmi og þau borin saman við önnur mál. 

Heimildir 

Andersen, Gisle. 2014. Pragmatic borrowing. Journal of Pragmatics 67:17–33. 

Helga Hilmisdóttir. 2025. The interplay between a domestic and borrowed form: A comparison of ha and what in Icelandic conversation. Nordic Journal of Linguistics 48(2):116–138 

Helga Hilmisdóttir, Martina Huhtamäki og Susanna Karlsson. 2025. Introduction: Pragmatic borrowing from English. Nordic Journal of Linguistics 48(2):113–115. 

Peterson, Elizabeth og Johanna Vaattovaara. 2017. Kiitos and pliis: The relationship of native and borrowed politeness markers in Finnish. Journal of Politeness Research 10(2):247-269.