Jóhannes Gísli Jónsson

Frásagnarumröðun í íslensku vs. færeysku 

Íslenska og færeyska eiga mjög margt sameiginlegt að því er varðar orðaröð; t.d. gildir reglan um persónubeygða sögn í öðru sæti almennt í aðalsetningum í báðum málunum. Hins vegar kemur fram munur í frásagnarumröðun, þ.e. sögn í fyrsta sæti í fullyrðingasetningum á undan  frumlagi, en helstu handbækur um færeyska setningafræði segja að þessi röð sé sjaldgæf í nútímamáli (Henriksen 2011:113-114, Höskuld Þráinsson og fl. 2012:239-240 og Petersen 2020:337). Í íslensku nútímamáli er ekki að sjá að frásagnarumröðun hafið gefið neitt eftir  enda er auðvelt að finna nýleg dæmi um frásagnarumröðun í Risamálheildinni (2024). Þessi dæmi eru ekki bundin við ritaðar frásagnir heldur koma þau líka fyrir í alls kyns stjórnsýslutextum: 

(1) Um ólögmæta meingerð gegn friði og persónu stefnanda var að ræða, sem hafði í för með sér töluvert líkamstjón. Þykir stefnandi því eiga rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  

Munurinn á íslensku og færeysku kemur skýrt fram í biblíunni því þar er oft frásagnarumröðun í íslensku þýðingunni en frumlag á undan sögn í samsvarandi textabroti í færeysku: 

(2) Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi.
Fóru þá allir til að láta skrásetja sig….En meðan þau voru þar, kom sá tími,
er hún skyldi verða léttari. 
Fæddi hún þá son sinn frumgetinn… 

(3) Hetta fyrsta manntalið var, meðan Kvirinius var landshøvdingi í Sýriulandi.
Og øll 
fóru at verða skrivað….Men tað hendi, meðan tey vóru har, at tíðin kom, at
hon skuldi eiga barn. Og hon 
átti son sín, hin fyrstafødda… 

Þeir sem fjallað hafa um frásagnarumröðun í nútímafæreysku virðast þó einkum hafa tekið mið af fullyrðingasetningum þar sem persónubeygða sögnin kemur í upphafi málsgreinar. Einföld leit á netinu sýnir hins vegar að frásagnarumröðun kemur oft fyrir á eftir aðaltengingunni og: 

(4a) Jákup fekk A-venjaraprógv í fjør og hevur hann tey seinni árini vant ymisk lið hjá B36. 

(4b) Henny var ein góð systir og tók hon sær av okkum yngru systkjum 

(4c) Heitið eigur at vera á føroyskum, og skal tað geva eina stutta og greiða lýsing av, hvat verkætlanin snýr seg um 

Þetta þarf þó ekki að koma á óvart þar sem frásagnarumröðun krefst tiltekins samhengis eins og kunnugt er (Halldór Ármann Sigurðsson 1983/1994), t.d. þannig að setningin með sögn í fyrsta sæti feli í sér nánari upplýsingar um það sem segir í undanfarandi setningu, sbr. dæmin í (4a-c) hér að ofan. En með því að tengja tvær setningar með aðaltengingunni og má segja að þessi tengsl verði mun skýrari en ella. Þetta vekur sannarlega spurningar um íslensku en frásagnarumröðun er þar mun algengari á eftir og en í upphafi málsgreinar ef marka má leitir í Risamálheildinni (2024). Það er þó alls ekki ljóst hvort hægt er að tengja þetta ólíkri notkun frásagnarumröðunar á eftir og en í upphafi málsgreinar en í fyrirlestrinum verður reynt að varpa ljósi á þessa spurningu og þar verður m.a. stuðst við greiningu Riegers (1968) á frásagnar-umröðun í Íslendingasögum.