Sigríður Sæunn Sigurðardóttir

Veðraðar veðurformgerðir: Um breytingar á tjáningu veðuratburða  

Í þessu erindi er fjallað um þróun formgerða sem lýsa veðuratburðum. Sérstaklega er hoft til hvaða lærdóm má draga af gögnum úr íslensku. Þá er sett fram tillaga um einátta (e. unidirecitonal) þróun veðurformgerða.  

Veðri og veðurtengdum atburðum er hægt að lýsa á fjölbreyttan hátt. Ýmist má nota nafnorð, sagnorð, lýsingarð, eða blöndu af þessu. Lögð hefur verið fram tillaga að málgerðarlegri flokkun á því hvernig veðuratburðir eru málfræðilega kóðaðir (sjá Eriksen o.fl. 2010, 2012, 2015). Þrjár mismuandi formgerðir eru til, en þeim er lýst í (1).  

(1) a. Sagntýpa (e. Predicate Type): veðuratburði er lýst með stakri sögn
      b. Rökliðatýpa (e. Argument Type): veðuratburði er lýst með röklið sem vísar í veður og sögn
sem hefur litla eða almenna merkingu

      c. Blönduð týpa (e. Argment-Predicae Type): veðuratburði er lýst með nafnorði og
sögn og hvort um sig tengist veðri. 

Eins og Eriksen og félagar (2010, 2012, 2015) sýna fram á geta tungumál nýtt fleiri en eina formgerð til að lýsa veðuratburðum. Í íslensku má til dæmis auðveldlega finna dæmi um formgerð (1a) og (1b), en formgerð (1c) er aðeins til að takmörkuðu leyti. Athugið að formgerð (1a) á við það sem alla jafna er kallað veðursögn (e. weather verb).  Í (2) eru gefin íslensk dæmi og hverja formgerð fyrir sig.  

(2) a. Sagntýpa: Nú rignir
      b. Rökliðatýpa: Vindur skall á
      c. Blönduð týpa: Það snjóaði fallegum stórum, hvítum flygsum 

Í erindi mínu nýti ég málgerðarlega flokkun Eirksen o.fl. (2010, 2012, 2015) til að skoða tjáningu veðuratburða í sögulegu ljósi. Byggt á gögnum úr íslensku er lögð er fram tillaga um uppkomu formgerða sem lýsa veðri og hvernig þeir geta breyst úr einni formgerð í aðra. Því er haldið fram að formgerðir sem lýsa veðri reki uppruna sinn ýmist til rökliðatýpunnar (1b) eða sagntýpunnar (1a). Þriðja formgerðin, blandaða týpan (1c), virðist aftur á mótti alltaf afleidd. Þá getur rökliðatýpan breyst í sagntýpu með brottfellingu á röklið og endurtúlkun á því hvernig veðuratburðurinn er kóðaður. Sagntýpan getur breyst í blandaða týpu þegar röklið er bætt við, en oft kveður sá rökliður nánar á um undirtegund þess veðurfars sem lýst er, sbr. fallegum stórum, hvítum flygsum í (2c) hér að ofan. Þegar mögulegar breytingar á veðurformgerðum eru teknar saman, má lýsa þeim í formi einátta (e. unidirectional) þróunar eins og gert er í (3).  

(3) Einátta þróun veðurformgerða
      (i) Rökliðatýpa →  (ii) Sagntýpa → (iii) Blönduð týpa 

Stefna breytinganna í (3) gefur hugmynd um hvernig málgerðaleg flokkun sem byggir á samtímalegum gögnum getur nýst við athuganir á sögulegri þróun veðurlýsinga. Óhætt er þó að segja að frekari ransókna er þörf, einkum með tilliti til formgerðar (1c), þ.e. blönduðu týpunnar.