Aukafallsfrumlög með lýsingarorðum: Samtími, saga og forsaga
Í þessum fyrirlestri er sögulegu ljósi varpað á nafnliðavíxl í tilteknum setningagerðum í íslensku að fornu og nýju. Umfram allt er sjónum beint að setningagerðum með sögninni vera og lýsingarorði sem stýrir aukafalli, aðallega þágufalli, á nafnlið (Nygaard 1905, Kristín Þóra Pétursdóttir 2014). Undirflokkur þessara setningagerða sýnir víxl milli nafnliða í nefnifalli (nf) og þágufalli (þgf) þar sem fyrri nafnliðurinn er frumlag en sá síðari andlag. Dæmin í (1) sýna nafnliðavíxl í beinum spurnarsetningum, nf-þgf (1a) og þgf-nf (1b). Óháð falli telst fyrri nafnliðurinn frumlag en sá síðari andlag.
(1) a. Hefur strákurinn alltaf verið stelpunni kær?
b. Hefur stelpunni alltaf verið strákurinn kær?
Þessi nafnliðavíxl eru sambærileg við víxl með svokölluðum skiptisögnum („henta-sögnum“) (Helgi Bernódusson 1982, Kristín Þóra Pétursdóttir 2014, Sigríður Sæunn Sigurðardóttir & Þórhallur Eyþórsson 2024). Dæmin í (2) sýna víxl af taginu nf-þgf (2a) og þgf-nf (2b) með henta. Eins og í (1) er fyrri nafnliðurinn frumlag en sá síðari andlag, óháð falli. Tekið skal fram að þessi setningagerð er ekki með kjarnafærslu andlags heldur er fremri nafnliðurinn í frumlagssæti.
(2) a. Hefur ráðstöfunin alltaf hentað konunni?
b. Hefur konunni alltaf hentað ráðstöfunin?
Alkunna er að skiptisagnir eru ólíkar „venjulegum“ aukafallssögnum eins og líka, þar sem fyrri liðurinn er alltaf frumlag í þágufalli en síðari liðurinn andlag í nefnifalli.
Hér er því haldið fram að í sögulegu samhengi séu þágufallsfrumlög með lýsingarorðum nýjung: Í fyrsta lagi eru flestir nafnliðir með lýsingarorðum andlög en aðeins hluti þágufallsliða frumlög (Kristín Þóra Pétursdóttir 2014). Í öðru lagi er tilhneiging til að skipta þágufallslið út fyrir forsetningarlið þegar frumlagið er í nefnifalli (3).
(3) Verkefnið var erfitt [Fl fyrir alla].
Fjarvera þágufallsfrumlags í setningum með forsetningarlið bendir einnig til þess að nefnifallsfrumlag sé upphaflegt en þágufallsfrumlag nýjung.
Leiða má rök að því að þágufallsskynjendurnir hafi verið endurtúlkaðir sem frumlög þegar þeir voru færðir fram í fyrsta sæti í setningu. Þetta virðist hafa gerst í forsögu íslensku (frumnorrænu). Ástæða færslunnar kann að hafa verið sú að þágufallsskynjendur tákna lifandi (e. animate) verur (t.d. Haspelmath 2001, Sigríður S. Sigurðardóttir & Þórhallur Eyþórsson 2024).
Hægt er að setja fram tilgátu um afstæða tímaröð breytinganna:
(4) a. Í nf-þgf-setningagerðum var þágufallið upphaflega aðeins andlag.
b. Nafnliðavíxl frá nf-þgf yfir í þgf-nf urðu með sumum þágufallsskynjendum
fremst í setningu.
c. Þetta leiddi til endurtúlkunará aukafallsskynjendum í fyrsta sæti í setningu
sem frumlögum.
Samanburðardæmi úr þýsku og færeysku veita innsýn í þróun lýsingarorða sem stýra þágufalli í germönsku. Í báðum tungumálunum er aðeins varðveittur takmarkaður fjöldi slíkra lýsingarorða og nafnliðirnir með þeim eru eingöngu andlög (t.d. Jóhannes G. Jónsson & Kristín Þóra Pétursdóttir 2012). Í forsögu íslensku virðast sumir aukafallsliðir hins vegar hafa verið endurtúlkaðir sem frumlög með sögnum eins og þeim sem sýndar eru í (1) og (2) þegar nafnliðirnir stóðu fremst í setningu. Smám saman varð þó algengara að skipta út nafnlið fyrir forsetningalið, eins og í (3), og við það dró úr virkni aukafallsliðanna.