Gunnhildur Stefánsdóttir

Íðorðastarf og þýðingar: Sérstaða Hugtakasafns þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins 

Í þessu erindi verður sagt frá viðfangsefni meistararitgerðar minnar í þýðingafræði haustið 2025. Þar var tekið til skoðunar Hugtakasafn þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins en það er 35 ára á þessu ári. Þetta er eitt stærsta íðorðasafn landsins sem inniheldur yfir 84,000 tvímála færslur á ensku og íslensku og einnig er fjöldi færslna þar sem fram koma jafnheiti á Norðurlandamálunum, frönsku, þýsku og latínu. Hverri færslu fylgja einnig upplýsingareitir. Í safninu er að finna íðorð, sérhæfðan orðaforða en líka ýmsa frasa, svo og landaheiti, heiti milliríkjasamninga, stofnana, nefnda, ráða, o.fl. Hugtakasafnið, innihald þess og starfsemin öll, hefur ekki verið skoðað skipulega áður þótt drepið hafi verið á einstaka þætti þess í ýmsum umfjöllunum. 

Greint verður frá tilurð safnsins og ástæðu þess að ákveðið var að safna sérhæfðum orðaforða, íðorðum og öðru efni. Uppruna þess má rekja til þýðingastarfsins sem hófst með þýðingu á EES-samningnum og í kjölfarið á EES-gerðum sem falla undir hann. Fjallað verður um hvernig íðorðastarfið og þýðingarnar tengjast málstefnu, bæði á Íslandi og í Evrópusambandinu. Íslensk málstefna er öllum kunn og eindreginn vilji til að viðhalda íslenskri tungu. Innan Evrópusambandsins er einnig málstefna sem er einn af hornsteinum Sambandsins. Í fyrstu reglugerð þess frá 1958 er kveðið á um jafnræði allra þjóðtungna aðildarríkjanna og um skylduna að þýða lög Sambandsins á þær og nær sú skylda einnig til íslensku í gegnum ákvæði í EES-samningnum. 

Fjallað verður um tenginguna milli nytjaþýðinga og íðorðastarfs og jafnframt vensl íðorðafræði og þýðingafræði, bæði fræðilegan grunn og hagnýta hlið þessara skyldu greina. Það er einkum við þýðingar á nytjatexta sem brýn þörf er á íðorðavinnu. Þar sem EES-textar eru nær undantekningarlaust nytjatextar á sérhæfðum sviðum er litið til textagreiningar og hvernig hún tengist þýðingum og íðorðastarfi. Jafnframt er skoðað sérstaklega mikilvægi íðorðastarfs og umsjón orðaforða í tengslum við þýðingar á lagatextum, sem EES-textar eru. Í lagamáli er nauðsynlegt að viðhafa sérstaka aðgát að því er varðar orðaforða og jafnheiti. 

Þá er Hugtakasafnið skoðað út frá kenningum um þýðingamiðuð íðorðasöfn en slík sjónarmið gagnvart orðasöfnum sem tekin eru saman til að nýtast við nytjaþýðingar fóru að birtast á síðustu áratugum 20. aldar. Í þessum kenningum er gerður greinarmunur á hefðbundnum íðorðasöfnum í anda Eugen Wüsters og settar eru reglur um í ISO-stöðlum annars vegar og íðorðasöfnum þar sem safnað er sérhæfðum orðaforða og íðorðum sem gagnast í nytjaþýðingum hins vegar. Í Hugtakasafninu er margvíslegur sérhæfður orðaforði sem ekki flokkast undir íðorð og var rýnt sérstaklega í þann þátt í orðaforða safnsins.