Ása Jónsdóttir og Rósa Signý Gísladóttir

Heyrðu: notkun og hlutverk

Fjallað hefur verið um orðræðuögnina heyrðu í tengslum við breytingar á tungumálinu og þykir sumum hún lýti á máli fólks, að minnsta kosti ef marka má orðræðu á samfélagsmiðlum. Hvaða hlutverki gegnir heyrðu í íslensku og er raunverulega um nýtt fyrirbæri að ræða?

Til að varpa ljósi á notkun heyrðu voru skoðaðar rúmlega átta klukkustundir af samtölum og hlutverk agnarinnar greint með aðferðum samtalsgreiningar og samskiptamálfræði (Schegloff, 2007; Couper-Kuhlen og Selting, 2017). Efniviðurinn var myndbandsupptökur af sjö hversdagslegum samtölum frá árunum 2011–2012 (Rósa Signý Gísladóttir, 2015) og fjórir hlaðvarpsþættir frá 2021–2023. Um er að ræða samtöl af ólíkum toga og er aldur málhafa allt frá menntaskólaaldri og upp í áttrætt. Byggt var á flokkun á hlutverkum heyrðu sem sett var fram í BA rannsókn Ásu Jónsdóttur (Ása Jónsdóttir, 2022) og sú flokkun endurskoðuð eftir því sem rannsókninni vatt fram.

Alls fundust 94 dæmi um heyrðu en það samsvarar því að ögnin heyrist á um 5 mínútna fresti. Ögnin kemur í flestum tilvikum fyrir í upphafi lotu og í fyrri hluta segðapars en agnir í þeirri stöðu hafa gjarnan það hlutverk að undirstrika hvort lotan tengist fyrra umræðuefni (Couper-Kuhlen og Selting, 2017). Í þessu samhengi er heyrðu notuð til að skipta um umræðuefni en einnig til að fanga athygli annarra þátttakanda í samræðunum með einhvers konar innskoti. Ögnin kemur líka fyrir í upphafi lotu í seinni hluta segðapars, t.d. í svörum við spurningum, og er þá notuð til að vara viðmælanda við að svarið verði verði óvenjulangt eða óvænt að efninu til. Þessi notkun heyrðu er um margt lík well í ensku (Couper-Kuhlen og Selting, 2017; Heritage, 2015). Nokkur heyrðu fundust inni í lotukjarna, þ.e.a.s. ekki í upphafi lotunnar, en í þeim tilvikum er um að ræða upphaf á beinni ræðu eða tjáningu á innri hugsun, oft í kjölfar tilvitnunarmerkja á borð við bara (Eva Ragnarsdóttir Kamban, 2021). Að lokum fundust nokkur vafatilvik sem falla ekki í flokkana hér að ofan og þarfnast nánari skoðunar.

Rannsóknin sýnir að orðræðuögnin heyrðu er ekki aðeins hluti af máli yngra fólks, en meðal annars voru dæmi um heyrðu í samskiptum miðaldra foreldra og einstaklinga á dvalarheimili fyrir aldraða. Því er ólíklegt að um nýbreytni sé að ræða. Ögnin á sér ýmsar hliðstæður í öðrum tungumálum og má benda á að skynjunarsagnir á borð við heyra og sjá hafa tilhneigingu til að verða að orðræðuögnum með skyld hlutverk í mörgum tungumálum, t.d. ensku, mandarín kínversku, spænsku og ítölsku (San Roque o.fl., 2018). Heyrðu er því ekki óheppilegur kækur eða séríslenskt skrípi heldur gegnir ögnin mikilvægu hlutverki við að gera samskipti okkar liðlegri, rétt eins og aðrar orðræðuagnir í tungumálum heimsins (Couper-Kuhlen og Selting, 2017; Enfield, 2017).

 

Ása Jónsdóttir (2022). Hin ýmsu hlutverk heyrðu: Rannsókn á orðræðuögninni í íslenskum samtölum [BA ritgerð, Háskóli Íslands]. Skemman. https://skemman.is/handle/1946/42808

Couper-Kuhlen, E. og Selting, M. (2017). Interactional linguistics: Studying language in social interaction. Cambridge University Press.

Enfield, N. J. (2017). How we talk: The inner workings of conversation. Basic Books.

Eva Ragnarsdóttir Kamban (2021). „Þau voru bara eitthvað oh my god…“: Beinar ræður í unglingamáli [BA ritgerð, Háskóli Íslands]. Skemman. https://skemman.is/handle/1946/37399

Heritage, J. (2015). Well-prefaced turns in English conversation: A conversation analytic perspective. Journal of Pragmatics, 88, 88–104.

Rósa Signý Gísladóttir (2015). Other-initiated repair in Icelandic. Open Linguistics, 1(1).

San Roque, L., Kendrick, K. H., Norcliffe, E. og Majid, A. (2018). Universal meaning extensions of perception verbs are grounded in interaction. Cognitive Linguistics, 29(3), 371–406.

Schegloff, E. A. (2007). Sequence organization in interaction: A primer in conversation analysis. Cambridge University Press.