Málið á Njáls sögu á sautjándu og átjándu öld
Njáls saga, sem trúlega hefur verið rituð seint á þrettándu öld, er varðveitt í ríflega sextíu handritum. Þau elstu eru frá því um 1300 en sagan dreifðist í uppskriftum öldum saman og var enn skrifuð upp á nítjándu öld. Þessi mikli fjöldi handrita vitnar um lifandi áhuga á sögunni. Kynslóð fram af kynslóð var hún skrifuð upp eftir eldri handritum, stundum gömlum handritum en stundum yngri, allt eftir því hvað var tiltækt. Trúlega hefur sagan mest verið lesin upphátt fyrir hóp áheyrenda, rædd og brotin til mergjar. En á hvaða máli var sú Njáls saga sem þjóðin naut á síðari öldum? Var hún áfram á þrettándu aldar máli eða breyttist málið í meðförum skrifaranna sem miðluðu henni áfram? Hér verður rýnt í Njáls sögu á nokkrum handritum frá sautjándu og átjándu öld og valin málfarsatriði borin saman við varðveitt handrit frá um og upp úr 1300. Samanburðurinn leiðir í ljós að textanum var miðlað á lifandi máli. Njáll og Gunnar töluðu sautjándu aldar íslensku frammi fyrir áheyrendum á sautjándu öld.