Lög Íslenska málfræðifélagsins (birt í Íslensku máli 3:205-206, 1981; 4. gr. breytt á aðalfundi 11. apríl 2019; 7. og 8. gr. breytt á aðalfundi 27. maí 2021):
1. gr.
Félagið heitir Íslenska málfræðifélagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Tilgangur félagsins er að efla fræðslu um íslenska og almenna málfræði og stuðla að rannsóknum á íslensku máli. Þessum tilgangi skal félagið leitast við að ná með því m.a. að halda fræðslufundi og gefa út tímarit.
3. gr.
Félagið er opið öllum sem áhuga hafa á málfræði.
4. gr.
Aðalfund félagsins skal halda á fyrsta ársfjórðungi ár hvert, og skal til hans boðað með viku fyrirvara.
5. gr.
Á aðalfundi skilar fráfarandi stjórn skýrslu um liðið starfsár og leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.
6. gr.
Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað. Lagabreytingar eru einungis heimilar á aðalfundi. Einfaldur meirihluti ræður í öllum atkvæðagreiðslum í félaginu.
7. gr.
Á aðalfundi skal kjósa formann félagsins, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Auk þess skal þar kjósa ritstjóra tímarits félagsins, tvo skoðunarmenn reikninga og tvo varamenn í stjórn. Ritstjóri á sæti á stjórnarfundum og hefur þar atkvæðisrétt. Þessir fulltrúar skulu allir kjörnir til eins árs í senn.
8. gr.
Félagið gefur út tímarit um íslenskt mál. Tímaritið skal koma út a.m.k. einu sinni á ári. Stjórninni er heimilt að semja við annan aðila um samvinnu um útgáfu tímaritsins.
9. gr.
Stjórn ákveður áskriftargjald að tímaritinu, og eru þeir sem það greiða sjálfkrafa félagar í félaginu.