Víst þú segir það, hlýtur það að vera rétt!
Um tilbrigði í orsakarsetningum
Fjallað verður um eðli og einkenni orsakarsetninga í íslensku með nokkrum samanburði við færeysku. Viðfangsefnið tengist kenningum um undirskipun og gerð aukasetninga í tungumálum almennt. Sérstaklega verður litið á mismunandi orsakartengingar og breytileika og þróun í því sambandi, upplýsingaformgerð, stöðu orsakarsetninga innan móðursetningar og möguleika á kjarnafærslu innan orsakarsetninga. Í dæmum í (1b), (2b) og (3b) má sjá tilraunir til að kjarnafæra mismunandi orð og liði í orsakarsetningum með mismunandi tengiorðum (byggt á Friðriki Magnússyni 1990: 100, 104, 109). Dæmin í (4) sýna hvernig notkun framsöguháttar og viðtengingarháttar tengist sannleiksgildi viðkomandi orsakarsetningar (sjá Jakob J. Smára 1920: 226). Í (5b) er dæmi um nýstárlega orsakartengingu.
(1)
a. Sigga komst ekki inn [af því að hún hafði gleymt lyklunum einu sinni enn].
b. %Sigga komst ekki inn [af því að lyklunum hafði hún gleymt einu sinni enn].
(2)
a. Bíllinn fór ekki í gang [vegna þess að Siggi hafði tekið úr honum rafgeyminn daginn áður]
b. %Bíllinn fór ekki í gang [vegna þess að daginn áður hafði Siggi tekið úr honum rafgeyminn].
(3)
a. [Fyrst við getum ekki opnað hurðina] verðum við að brjóta gluggann
b. %[Fyrst hurðina getum við ekki opnað] verðum við að brjóta gluggann
(4)
a. Ég tala ekki svona [af því að ég sé reiður] (= ég er ekki reiður en tala svona samt)
b. Ég tala ekki svona [af því að ég er reiður] (= ég er reyndar reiður en það er ekki ástæðan).
(5)
a. [Fyrst þú segir það] hlýtur það að vera rétt.
b. %[Víst þú segir það] hlýtur það að vera rétt.
Sagt verður frá dómaprófum sem höfundur hefur lagt fyrir háskólanema hér heima og í Færeyjum. Fram kemur að einstök tengiorð hafa tilhneigingu til að falla brott (af því að -> (af) því (að)) í báðum málum, einkum í eftirsettum orsakarsetningum, en almennt eru orsakartengingar mun fjölbreytilegri í íslensku en færeysku. Niðurstöður úr dómaprófum benda einnig til þess að færslur innan orsakarsetninga í íslensku séu takmarkaðri en áður hefur verið talið. Þá verða kynnt ný gögn um háttanotkun í atvikssetningum í íslensku sem varpa ljósi á þann greinarmun sem sumir fræðimenn hafa gert á miðlægum og jaðarlægum atvikssetningum (Haegeman 2012). Loks verður hugað að þróun orsakarsetninga í íslensku (sjá Eirík Rögnvaldsson 2005: 611) og að hvaða marki orsakartengingar líkjast öðrum atvikstengingum, bæði samtímalega og sögulega. Í því sambandi verða m.a. rifjuð upp líkindi orsakarsetninga og tíðarsetninga í forníslensku.
Rit sem vísað er til
- Eiríkur Rögnvaldsson. 2005. Setningafræðilegar breytingar í íslensku. Höskuldur Þráinsson (ritstj.), Íslensk tunga III. Setningar, bls. 602–635. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- Friðrik Magnússon. 1990. Kjarnafærsla og það-innskot í aukasetningum í íslensku. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
- Haegeman, Liliane. 2012. Adverbial clauses, main clause phenomena, and the composition of the left periphery. The cartography of syntactic structures, 8. bindi. Oxford University Press, Oxford.
- Jakob Jóh. Smári. 1920. Íslenzk setningafræði. Bókaverzlun Ársæls Árnasonar, Reykjavík.