23. Rask-ráðstefnan 2009

23. Rask-ráðstefna Íslenska málfræðifélagsins og Málvísindastofnunar HÍ
Þjóðminjasafninu 31. janúar 2009

 

Dagskrá og útdrættir

 

09:15-09:45: Guðrún Kvaran: Málfræði í vasabókum Björns M. Ólsens

Margir kannast við að Björn M. Ólsen, fyrrum háskólarektor, safnaði markvisst orðaforða úr mæltu máli á síðustu áratugum 19. aldar. Hann ferðaðist um landið og skráði hjá sér í vasabækur orð og merkingu þeirra í flestum landshlutum og þáði einnig orðalista frá nokkrum nafngreindum mönnum. Í fyrirlestrinum verður ekki fjallað um þessa orðasöfnun Björns heldur um ýmislegt sem hann skráði hjá sér varðandi framburð og beygingar og honum þótti athyglisvert.

Mest er um framburðardæmi víða að af landinu, t.d. vestfirskan framburð, raddaðan framburð á Norðurlandi, skaftfellsk einkenni og hv– og kv-framburð, svo að eitthvað sé nefnt, en einnig eru fjölmörg dæmi um beygingu orða, einkum sagna, sem Birni hefur þótt vert að skrá hjá sér. Hvergi er að finna hvort Björn ætlaði sér eitthvað sérstakt með þessi framburðar- og beygingardæmi enda vann hann sjálfur ekkert úr efni vasabókanna.

 

09:45-10:15: Guðrún Þórhallsdóttir: Raunkyn, eðliskyn og fleiri kynlegar hliðar á kyni

Þeir sem hafa kynnt málfræðifyrirbærið kyn í íslenskum handbókum hafa löngum útskýrt muninn á málfræðilegu kyni og líffræðilegu og muninn á föstu kyni nafnorða og kynbeygingu fornafna og lýsingarorða. Þeir hafa oft komist af með eitt hugtak, kyn eða málfræðilegt kyn, og nöfnin á kynjunum þremur í íslensku, karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni.

Kynjanotkun er þó svo margbrotin að gagnlegt er að geta lýst henni með fleiri málfræðiheitum, og á það ekki síst við aðstæður þar sem málfræðilegt kyn nafnorðs og líffræðilegt kyn þess sem orðið er notað um fer ekki saman. Orðin raunkyn og eðliskyn hafa verið notuð í því samhengi í nýlegum málfræðiritum (Íslenskri tungu II og III, 2005). Í fyrirlestrinum er ætlunin að ræða hlutverk þessara orða í málfræðinni — í hvaða merkingu megi nota þau og hvort þörf er á þeim báðum — og einnig verða kynnt fleiri hugtök sem að gagni koma til að lýsa notkun kynja.

 

10:15-10:45: Margrét Jónsdóttir: Nöfn, kyn og beyging

Í mannanafnalögunum er kveðið á um að dreng skuli ekki gefa kvenmannsnafn og stúlku ekki karlmannsnafn. Þetta ákvæði lagannna er í samræmi við þá hefð sem ávallt hefur ríkt hér en er ekki séríslenskt heldur germanskur arfur. En þrátt fyrir þetta ákvæði laganna eru í sögu málsins dæmi þess að karlar og konur hafi borið sama nafnið. Dæmi um það eru t.d. nöfnin Abel, og Elís enda þótt svo sé ekki lengur en líka Marel sem svo er enn notað. Þekkast er hins vegar nafnið Blær sem er skráð karlmannsnafn en ein kona ber nafnið.

Í fyrirlestrinum leiði ég að því rök að í raun sé ekkert sem mæli gegn því að bæði kynin beri „sama“ nafnið enda hljóti beyging þeirra ávallt að verða ólík þótt ekki sé nema í einu falli. Þannig gætu nöfn eins og t.d. Blær og Ilmur verið nöfn beggja kynja.

Á mannanafnaskrá er nafnið Francis skráð sem karlmannsnafn og mannanafnanefnd samþykkti 20. október 2004 nafnið Nikíta sem kvenmannsnafn; nafnið er þó ekki á nafnaskrá. En sú stund gæti runnið upp að endurskoða þyrfti þessa afstöðu og að Francis yrði kvenmannsnafn og Nikíta karlmannsnafn. Það sama ætti þá við um nafnið Andrea sem a.m.k. einn íslenskur karlmaður ber skv. þjóðskrá. Ekkert mælir því gegn að Nikíta og Andrea verði karlmannsnöfn. Þau yrðu „óbeygjanleg“ en það er auðvitað beyging í sjálfu sér. Þá ber að hafa í huga að fyrir eru í málinu óbeygð nöfn.

 

11:00-11:30: Kristín Lena Þorvaldsdóttir: Íslenskt táknmál og reglufesta málfræðinnar

Raddmál eru mynduð með talfærum og er þeim miðlað í gegnum heyrn. Táknmál eru mynduð með höndum og líkama og er þeim miðlað í gegnum sjón. Raddmál heimsins eru ólík innbyrðis og hið sama á við um táknmál. Það er því ekki til neitt alþjóðlegt táknmál. Það ekki svo ýkja langt síðan menn töldu táknmál líkjast samskiptamáli apa og litu því ekki á táknmál sem fullgild mál með eigin málfræði.

Margir töldu (og telja jafnvel enn) táknmál vera raddmál talað með höndunum sem byggðist á málfræði nágrannaraddmálsins, ef menn töldu táknmál fylgja einhverjum málfræðireglum yfir höfuð. Fræðimenn innan táknmálsfræða nálgast málfræði táknmáls á ólíkan hátt. Í því samhengi verður aðferð við rannsókn á persónu vísimiða (e. referent) í bendingum í íslenska táknmálinu mátuð við hugmyndir fræðimanna.

Kveikjan að fyrirlestrinum er fyrirhuguð rannsókn við Háskóla Íslands á setningafræði íslenska táknmálsins sem byggir á B.A.-ritgerðum Kristínar Lenu Þorvaldsdóttur og Elísu Guðrúnar Brynjólfsdóttur.

 

11:30-12:00: Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir: Setningafræði í táknmálum

Eitt af því sem setningafræðin gerir er að skoða setningar tungumála út frá þeirri hugmynd málkunnáttufræðinnar að til séu algild lögmál sem eigi við í öllum tungumálum heims en hvert mál hafi þó ólík gildi á svonefndum færibreytum. Rannsóknir á setningafræði í táknmálum eru tiltölulega ungar og allflestar hafa þær verið gerðar á ameríska táknmálinu, ASL.

Í fyrirlestrinum verða skoðaðar kenningar um setningafræði í táknmálum og rætt um atriði eins og orðaröð, færslur o.þ.h. Einnig verður komið inn á kenningar um spurnarfærslu, sem er viðfangsefni BA-ritgerðar fyrirlesara, en rannsóknir á raddmálum hafa sýnt fram á það að þegar spurnarfærsla á sér stað færir hún spurnarliðinn til vinstri, þ.e. fremst í setningu. Hér verður rætt um það hvort spurnarfærsla í ASL (og öðrum táknmálum) sé til vinstri, eins og í þeim tungumálum sem hafa verið skoðuð, eða hvort hún sé í raun til hægri og sé þ.a.l. frábrugðin því sem við sjáum í raddmálum.

 

12:00-12:30: Ásbjörg Benediktsdóttir: Nýja þolmyndin. Fyrsta þolmyndun barna?

Á undanförnum áratugum hefur ný setningagerð rutt sér rúms, einkum meðal barna og unglinga. Hún er þekktust undir heitinu nýja þolmyndin. Setningagerðinni svipar að mörgu leyti til hefðbundinnar þolmyndar en er að því leyti frábrugðin, að lýsingarháttur þátíðar af aðalsögninni er alltaf í hvorugkyni, eintölu og nefnifalli, auk þess sem nafnliðurinn, sem samsvarar frumlagi hefðbundinnar þolmyndar, hegðar sér sem andlag. Dæmi: Það var lamið strákinn.

Í fyrirlestrinum verður sagt frá könnun sem lögð var fyrir 48 börn á aldrinum 4:6–7:6 ára á haustdögum 2008. Henni var ætlað að kanna hvort nýja þolmyndin geti verið fyrsta þolmyndun barna. Skemmst er frá því að segja að niðurstöðurnar benda til þess að svo sé. Jafnframt virðist setningagerðin ekki vera mjög virk í máli barna fyrr en um 6–8 ára aldur en um svipað leyti byrja þau að nota hefðbundna þolmynd með nafnliðarfærslu.

 

13:15-13:45: Jón G. Friðjónsson: Frávik í notkun þolmyndar

Í nútímamáli er auðvelt að finna þess dæmi að þolmynd sé ekki mynduð með hefðbundnum hætti. Í sumum tilvikum er um að ræða nýmæli en í öðrum má finna hliðstæður í fornu máli. Í erindinu verður einkum staldrað við fornmálsdæmi sem sýna frávik frá hefðbundinni myndun þolmyndar og leitast við að varpa ljósi á hvers eðlis frávikin eru.

 

13:45-14:15: Helgi Skúli Kjartansson: Um sambeygingu tengda/tengd/tengdri/tengdu viðurlögum

Í íslenskri mállýsingu er gert ráð fyrir að viðurlag sambeygist fallorði sem það stendur með, enda er það algengast í hvers konar málnotkun. Frá því eru þó ýmis frávik sem virðast bæði algengari og kerfisbundnari en títt er um frávik frá reglubundinni fallstjórn. Í erindinu verða rakin dæmi um þessi frávik, rýnt í tíðni tiltekinna frávika, greint frá atrennum að greiningu þeirra (sem reynast ófullnægjandi, ekki síst sú sem höfundur hefur sjálfur sett fram) og að lokum gerð ný tilraun til að lýsa raunverulegri málnotkun á þessu sviði.

 

14:15-14:45: Katrín Axelsdóttir: Hvort má bjóða þér meira?

Já/nei-spurningar nefnast spurningar þar sem svarið er annaðhvort jákvætt eða neikvætt. Í handbókum þar sem fjallað er um setningafræði fornmáls eru nefndar tvær aðferðir við að búa til slíkar spurningar. Það mátti gera með því að snúa við röð frumlags og sagnar (Er Gunnar heima?), eins og jafnan er gert í nútímamáli, en einnig mátti byrja á orðinu hvort og hafa síðan sögn og frumlag (Hvort er Gunnar heima?).

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessar gerðir já/nei-spurninga í fornu máli, einkum í Íslendingasögum, og sjónum m.a. beint að tíðni og dreifingu gerðanna tveggja. Einnig verða skoðuð ýmis yngri dæmi um hvort-gerðina, frá 16. öld og síðar, og rætt hvort sú gerð hafi haft einhverja sérstaka notkun eða merkingu.

 

14:45-15:15: Michael Schäfer: Íslenska – orða- eða atkvæðamál?

Málgerðafræðileg flokkun tungumáls sem orða- eða atkvæðamál byggist á því hvor einingin (atkvæðið eða hljóðkerfisorðið) er mikilvægari í málkerfinu. Færibreytunum sem hægt er að skoða varðandi flokkun má skipta í tvennt: Annars vegar formgerðarbeytur eins og áherslumynstur, sérhljóðkerfi og atkvæðagerð, en hins vegar ferlabreytur sem benda annaðhvort á atkvæðið eða hljóðkerfisorðið sem mikilvæga einingu.

Flokkun íslenskunnar er athyglisverð að því leyti að hún virðist vera orðamál samkvæmt formgerðarbreytunum en ferlabreyturnar benda til þess að hún hafi líka einkenni atkvæðamáls. Þannig eru dreifing áherslna, lengdarmunur sérhljóða í áhersluatkvæðum og áherslulausum atkvæðum og klasar á atkvæðamörkum vísbendingar um afmörkun hljóðkerfisorða. Á hinn boginn stuðla ferli eins og áherslujöfnun, endurskipun atkvæðaskila og brottfall áherslulausra sérhljóða í hljóðgapi að ómarkaðri atkvæðagerð sem er einkenni atkvæðamála.

 

15:30-16:00: Þórhallur Eyþórsson, Bjarki Karlsson og Kristján Árnason: Setningagreining eddukvæða í gagnagrunni

Í þessum fyrirlestri verður skýrt frá verkefni sem unnið er að við Háskóla Íslands og felst í heildstæðri greiningu á eddukvæðum frá mismunandi sjónarhornum. Kjarninn í rannsókninni er gagnagrunnur með bragfræðilega og málfræðilega greindum kvæðum. Rannsóknarferlið felur m.a. í sér málfræðilega mörkun samkvæmt stöðluðum XML-kóða og viðbótarmörkun sem nær til bragfræðilegra, hljóðkerfislegra, setningarlegra og bókmenntalegra þátta.

Gagnagrunnurinn gerir kleift að samþætta mismunandi upplýsingar, greina einstaka þætti af nákvæmni og fá tölfræðilegar upplýsingar sem sýna samspil ólíkra þátta. Í fyrirlestrinum verður sérstaklega fjallað um setningagreiningu eddukvæða í grunninum þar sem notast er við aðferðir afstöðumálfræði (e. dependency grammar) og sýnd dæmi um samhengið á milli setningafræði og bragfræði í völdum kvæðum.

 

16:00-16:30: François Heenen: Frönsk ósamsett framtíð í íslenskum þýðingum

Ósamsett framtíð, sem er algeng málfræðileg formdeild í frönsku — futur simple — hefur enga beina samsvörun í íslenska sagnkerfinu og getur verið þýdd á margan hátt, eins og t.d. með háttarsögn (skulu, munu, verða, o.fl.) ásamt nafnhætti eða með nútíð. Í fyrirlestrinum verður fjallað um forsendur sem gera þýðendum kleift að ákveða í hvert skipti hvaða íslensk sagnmynd hentar þýðingunni best.

 

16:30-17:00: Magnús Snædal: Gotneskt <ggw>: eitt eða tvennt?

Í norrænu og gotnesku varð hljóðbreyting sem gengur undir nafninu Holtzmanns-lögmál. Hún fólst í því að löng hálfsérhljóð breyttust í lokhljóð og hálfsérhljóð: *-jj– > ísl. –ggj-, veggur, gotn. –ddj-, waddjus; *-ww– > –ggw-, ísl. tryggur, gotn. triggws.

Í gotneskri réttritun er <g> ritað fyrir uppgómmælt nefhljóð á undan gómhljóði, gaggan‘ ganga’, og því er stafasambandið <ggw> einnig notað til þess að tákna upprunalegt /ngw/, siggwan‘syngja’. Handbækur um gotnesku gera því gjarna ráð fyrir því að framburður <ggw> hafi verið tvenns konar og farið eftir uppruna. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þetta.