27. Rask-ráðstefnan laugardaginn 26. janúar 2013
Dagskrá:
10:30-11:00 | Kristín Lena Þorvaldsdóttir, Rannveig Sverrisdóttir, Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson: | Áhrif íslensku á íslenskt táknmál (ÍTM) | ||
11:00-11:30 | Þóra Másdóttir: | Málhljóðaprófið – nýtt próf sem ætlað er kanna framburð orða hjá börnum – | ||
11:30-12:00 | Þórhalla Guðm. Beck: | Grunnlitir einn og átta | ||
13:00-13:30 | Aðalsteinn Hákonarson: | Tvíhljóðun í forníslensku: um heimildir og túlkun þeirra | ||
13:30-14:00 | Jón G. Friðjónsson: | Hlutur Peders Syvs í sögu íslenskra málshátta | ||
14:00-14:30 | Sigríður Sæunn Sigurðardóttir og Þórhallur Eyþórsson: | „…eigi berr mér nauðsyn til at þiggja“ Talgjörðir og túlkun fornra texta | ||
15:00-15:30 | Iris Edda Nowenstein Mathey: | „Mig langar sjálfri til þess“ Rannsókn á innri breytileika í fallmörkun frumlaga | ||
15:30-16:00 | Katrín Axelsdóttir: | Íslenska og erlend máláhrif |
Útdrættir:
Kristín Lena Þorvaldsdóttir, Rannveig Sverrisdóttir, Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson: Áhrif íslensku á íslenskt táknmál (ÍTM)
Hvert táknmál á sér nágrannaraddmál og verða táknmálin fyrir áhrifum frá þeim. Íslenska og ÍTM eru nágrannamál og áhrif íslensku á ÍTM eru vel þekkt, t.d. í orðmyndun og setningagerð. Þessi áhrif eiga sér oft málfélagslegar skýringar, s.s í viðhorfi til máls og menntun. Flest örnefni í ÍTM eru t.a.m. tökuþýðingar úr íslensku og aðaltengingar í máli sumra málhafa eru tákn sem samsvara aðaltengingum í íslensku, en í máli annarra málhafa eru setningar t.d. tengdar saman með líkamsfærslum. Þá eru bæði til dæmi um hv-spurningar þar sem sögnin er í öðru sæti (V2) og já/nei-spurningar það sem sögnin kemur fyrir fremst (V1), en sagnfærsla er ekki þekkt fyrirbæri í táknmálum heims og er hún aðeins þekkt í máli ungra málhafa ÍTM.
Þóra Másdóttir: Málhljóðaprófið – nýtt próf sem ætlað er kanna framburð orða hjá börnum
Þegar grunur leikur á um að börn séu með frávik í framburði er þeim gjarnan vísað til talmeinafræðings sem metur hvort um sé að ræða aldurssvarandi tilbrigði í framburði eða raunveruleg frávik. Til að staðfesta eða útiloka frávik er mikilvægt að talmeinafræðingurinn hafi í fórum sínum áreiðanlegt mælitæki. Fram að þessu hefur ekki verið til próf sem byggir á gögnum um hljóðþróun barna og fylgir aldursviðmiðum. Í erindinu verður Málhljóðaprófið kynnt til sögunnar, sagt frá fræðilegum forsendum, gagnaöflun og helstu niðurstöðum.
Þórhalla Guðm. Beck: Grunnlitir einn og átta
Tungumál hafa skipulagðar leiðir til að eignast litaheiti. Yfirleitt er talað um að grunnlitir í tungumálum séu tveir til ellefu: svartur, hvítur, rauður, gulur, grænn, blár, brúnn, bleikur, grár, fjólublár og appelsínugulur.
Auk níu grunnlita væri hugsanlega hægt að bæta fjólubláum og appelsínugulum við lista yfir þá íslensku, en það gengi t.d. gegn einni grunnreglunni um grunnlitaorð sem segir að þau geti ekki verið samsett.
Ýmsar athugarnir voru gerðar til að komast að stöðu þessara tveggja litaheita í málinu og þá aðallega stuðst við reglur Berlins og Kay um grunnliti. Niðurstaðan varð sú að mögulega væri fjólublár á leiðinni að verða grunnlitur.
Aðalsteinn Hákonarson: Tvíhljóðun í forníslensku: um heimildir og túlkun þeirra
Í erindinu verða kynntar niðurstöður af nýlegum athugunum á tvíhljóðun í forníslensku (Aðalsteinn Hákonarson 2010) og þær bornar saman við viðteknar hugmyndir um breytingarnar. Samkvæmt þeim eru litlar vísbendingar um tvíhljóðun fyrir 14. öld en áðurnefnd athugun leiddi í ljós að þegar frá því um 1200 ber mikið á ritháttum sem virðast endurspegla tvíhljóðun. Megintilgátan er sú að ritháttarbreytingin ‘e’ > ‘ie’, sem jafnan er talin helsta merki tvíhljóðunar og er sjaldgæf fyrir 1300, endurspegli tvíhljóðun aðeins óbeint. Einnig verða ræddar (og endurtúlkaðar) heimildir úr kveðskap um langlífi einhljóðsframburðar á /æ/.
Tilvísun
Aðalsteinn Hákonarson. 2010. Tvíhljóð í íslensku: um tvíhljóðun og þróun tvíhljóða í íslensku máli til forna. Óprentuð M.A.-ritgerð, Háskóla Íslands.
Jón G. Friðjónsson: Hlutur Peders Syvs í sögu íslenskra málshátta
Danski presturinn Peder Syv (1631-1702) er einkum þekktur fyrir verk sitt Dansk Ordsprogsamling en það kom út í tveimur bindum 1682 og 1688. Verkið hefur að geyma um 11300 orðasambönd (ordsprog) af mismunandi gerðum og ólíkum uppruna og hafði það mikil áhrif á danska tungu og bókmenntir. En verk Peders Syvs hefur einnig sérstakt gildi fyrir íslenska málsögu. Í formála fyrir fyrra bindinu greinir Peder Syv frá því að hann hafi fengið íslenska málshætti (445 að tölu) hjá Hannesi Þorleifssyni. Hannes var fornfræðingur Danakonungsen fórst í hafi haustið 1682 og með honum glötuðust fjölmörg handrit sem hann hafði viðað að sér á Íslandi. Í erindinu verður fjallað um íslenska málshætti í safni PS, geymd þeirra og gildi á sviði íslenskrar orðfræði.
Þórhallur Eyþórsson og Sigríður Sæunn Sigurðardóttir: „…eigi berr mér nauðsyn til at þiggja“ Talgjörðir og túlkun fornra texta
Í fornritum má iðulega finna torskilin orðaskipti á milli persóna. Í Morkinskinnu (kap. XVIII) er að finna þess konar dæmi sem lýtur að gjafaskiptum konungs og þegns. Þegar samtalið og athafnir persónanna eru skoðuð út frá kenningum um talgjörðir (speech act theory, sbr. Austin 1962, Searle 1969) skýrist textinn allverulega. Hér verður sýnt fram á að ekki nægi að greina slík orðaskipti eingöngu með hliðsjón af málfræðiatriðum eins og orðasafnsmerkingu og setningargerð, heldur þurfi einnig að skoða markmið mælenda og undirliggjandi málnotkunar- og samskiptareglur. Þannig getur greining með tilstyrk talgjörða varpað óvæntu ljósi á myrka staði í fornum textum.
Iris Edda Nowenstein Mathey: „Mig langar sjálfri til þess“ Rannsókn á innri breytileika í fallmörkun frumlaga
Í fyrirlestrinum verða kynntar niðurstöður yfirstandandi rannsóknar á innri breytileika í fallmörkun frumlaga. Rannsóknin er unnin í því skyni að skrá dreifingu breytileikans og varpa ljósi á eðli hans. 1251 dæmi um innri breytileika hefur verið safnað af Netinu auk þess sem 280 manns tóku þátt í netkönnun. Einnig stendur yfir könnun á innri breytileika í barnamáli. Niðurstöðurnar staðfesta að dreifingin er skilyrt af persónu og tölu frumlagsins en auk þess virðist samfall í nefnifalli og þolfalli frumlagsins skipta máli. Út frá þessum breytum sýna niðurstöðurnar skýrt mynstur í dreifingu breytileikans.
Katrín Axelsdóttir: Íslenska og erlend máláhrif
Skýringar á málbreytingum með vísan til erlendra áhrifa hafa notið mismikillar hylli meðal íslenskra málfræðinga og annarra sem fengist hafa við íslenska málsögu. Sumir hafa sýnt þessum möguleika takmarkaðan áhuga eða verið mjög gagnrýnir. Aðrir hafa verið jákvæðari. Í fyrirlestrinum verður fyrst rætt um þessi öndverðu sjónarmið. Þá verður fjallað nokkuð ítarlega um tvær breytingar í beygingarkerfinu þar sem erlend áhrif kunna að hafa komið við sögu og sagt frá þeim mælikvörðum sem nauðsynlegt er að beita við mat á slíkum skýringum. Jafnframt verður rætt um nokkur önnur tilvik í íslensku þar sem kerfislegar breytingar hafa verið skýrðar, a.m.k. að hluta, með vísan til erlendra áhrifa.