Sigríður Sigurjónsdóttir

Hvað má ég fá dúkku? Sjaldgæft tilbrigði í myndun hv-spurninga í máli Fíu

Máltaka ungra barna er að mörgu leyti fyrirsegjanleg og áþekk í grófum dráttum. Þannig feta börn með eðlilegan málþroska svipaða slóð þegar þau tileinka sér móðurmál sitt. Ákveðinn breytileiki er samt alltaf til staðar í máltökunni, þar sem tilbrigði koma fram í þeim frávikum sem einkenna mál ungra barna (sbr. Sigríði Sigurjónsdóttur 2008).

Í þessu erindi verður fjallað um hv-spurnarsetningamyndun Fíu en fylgst var reglulega með máltöku hennar í langsniðsathugun frá því hún var 0;10 mánaða þar til hún var 4;3 ára og enn lengur með dagbókarfærslum. Þegar Fía byrjaði að mynda hv-spurnarliði, 2;9 ára gömul, færði hún alltaf aðeins hv-spurnarorðið sjálft (fyrst aðeins spurnarorðið hvað en eftir 3;2 ára aldur einnig hvernig), en ekki allan hv-spurnarliðinn, fremst í setninguna, sjá (1):

(1)

  1. Hvað ætlar Eva að taka með [ __ dót]? (Fía 3;1:11)
  2. Amma, hvað kanntu [ __ lag]? (Fía 3;4:24)
  3. Hvernig færðu [ __ hest]? (Fía 3;2:16)

Þetta stig í máltöku Fíu stóð þar til hún var 3;6 ára en þá tók hún réttilega að færa allan hv-spurnarliðinn fremst í hv-spurningum, sjá (2), þótt hv-spurnarsetningar eins og í (1) komi einstaka sinnum fyrir í máli hennar allt til 9;2 ára aldurs.

(2)

  1. [Hvaða skó] fór Eva í __?                                 (Fía 3;6:19)
  2. [Hvorum burstanum] viltu bursta þig með __? (Fía 3;10:7)

Þetta tilbrigði í setningagerð virðist vera mjög sjaldgæft í máltöku íslenskra barna því yfirleitt ná íslensk börn mjög fljótt valdi á spurnarorðaröð móðurmáls síns (Sigríður Sigurjónsdóttir 1991). Rætt verður um mögulegar skýringar á þessu tilbrigði í máli Fíu en það virðist tengjast því að í hv-spurnarliðasetningum með spurnaratviksorðunum hvað og hvernig, þegar þau kveða á um stig (magn, stærð, lit, útlit), og í upphrópunarsetningum með þessum sömu hv-orðum og sumum áhersluatviksorðum leyfir íslenska undantekningar frá svokallaðri Hömlu á færslu vinstri kvists (e. Left Branch Condition), sbr. Ross 1967, sjá (3) og (4).

(3)

  1. [Hvað marga hesta] átt þú __?                      (íslenska)
  2.  Hvað átt þú [ __ marga hesta]?
  3. [How many horses] do you have __?           (enska)
  4.  *How do you have [ __ many horses]?
  5.  [Hvor mange heste] har du __?                   (danska)
  6.  *Hvor har du [ __ mange heste]?
  7.  [Wie viele Pferde] hast du __?                     (þýska)
  8. *Wie hast du [ __ viele Pferde]?                   (sbr. Höskuld Þráinsson 2005:179)

(4)

  1. Hvað ertu      [ __ gamall]?                    b.   Hvernig er X [ __ á litinn]?
  2. Hvað þú  ert  [ __ flottur]!                    c.   Ofsalega ertu [ __ stór] (sbr. Höskuld Þráinsson 2005; Eirík Rögnvaldsson 1990, 1996; Jóhannes Gísla Jónsson 2010)