Ari Páll Kristinsson

Norræn málstefna í orði og á borði

Hinn 1. nóvember 2006 undirrituðu norrænu menntamálaráðherrarnir skjal með yfirskriftina Deklaration om nordisk språkpolitik [Yfirlýsing um málstefnu Norðurlanda]. Yfirlýsinguna má skoða sem skjalfesta norræna málstefnu – og þá sem „málstefnu“ í þrengri skilningi hugtaksins, þ.e. sem „afmarkaða tiltekna opinbera yfirlýsingu um ásetning eða aðgerðaáætlun af einhverju tagi á vissu sviði“ (Ari Páll Kristinsson 2017:88) varðandi mál og málnotkun. Þarna eru tiltekin viss málleg grundvallarréttindi allra Norðurlandabúa og sett fram málpólitísk meginmarkmið. Ekki er aðeins um að ræða markmið um samskipti, t.d. að málstefna Norðurlanda skuli miða að því að „allir Norðurlandabúar geti fyrst og fremst átt samskipti hver við annan á skandinavísku máli“ heldur tilgreinir málstefnan einnig réttindi íbúa á Norðurlöndum m.a. til að „standa vörð um og efla sitt eigið móðurmál og minnihlutamál í landi sínu“ og réttinn til að „læra alþjóðatungumál með það að markmiði að geta tekið þátt í þróun alþjóðasamfélagsins“. Sérstaklega eru tilgreind þau réttindi að allir Norðurlandabúar eigi rétt á „að læra að skilja og þekkja eitt skandínavískt tungumál og öðlast skilning á öðrum skandínavískum tungumálum, með það að markmiði að geta tekið þátt í málsamfélagi Norðurlanda“.

Þá segir í málstefnunni, undir liðnum „Norðurlandabúar fremstir í mállegum efnum“, að vinna ætti að því að „[b]enda […] á norræna líkanið um tungumálasamstöðu og tungumálasamstarf á alþjóðavettvangi“ enda einkennist „[m]álsamfélög Norðurlanda […] af viðleitni samborgaranna til að skilja og virða tungumál annarra Norðurlandabúa“. Liðurinn „Lýðræðisleg málstefna fyrir fjöltyngd Norðurlönd“ hljóðar svo: „Málstefna Norðurlanda byggist á því að tungumál sem nýtt eru í samfélaginu séu sterk og lifandi, að þau verði það áfram og að samstarf Norðurlandaþjóða fari áfram fram á skandínavísku tungumálunum, þ.e. dönsku, norsku og sænsku.“

Í erindinu fjalla ég um norræna málstefnu annars vegar í hinum þrengri skilningi hugtaksins, sbr. skjalið sem lýst var hér á undan, og hins vegar í hinum víðari skilningi á málstefnuhugtakinu (sbr. Ara Pál Kristinsson 2017:87-88).

Við greininguna geng ég út frá hugtakakerfi og meginhugmyndum Spolskys (2004, 2009, 2018) um þrjá samtvinnaða þætti í málstefnu (málstýring, málafstaða, málhegðun).

Ég fjalla einnig um hugtakið „norrænt málsamfélag“ og hvernig því hefur verið beitt.

Meðal niðurstaðna minna er að sá hluti norrænnar málstýringar sem miðar að því að styrkja kunnáttu í skandinavísku máli til þátttöku í „málsamfélagi Norðurlanda“ muni seint ná tilætluðum árangri af því að slík málstýring tengist lítt eða ekki öðrum nauðsynlegum þáttum árangursríkrar málstefnu skv. greiningu Spolskys.

Heimildir:

  • Ari Páll Kristinsson. 2017. Málheimar. Sitthvað um málstefnu og málnotkun. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Deklaration om nordisk språkpolitik [Yfirlýsing um málstefnu Norðurlanda].             http://norden.diva-portal.org/smash/get/diva2:700895/FULLTEXT01.pdf
  • Spolsky, Bernard. 2004. Language Policy. Cambridge: Cambridge University Press.
  • Spolsky, Bernard. 2009. Language Management. Cambridge University Press.
  • Spolsky, Bernard. 2018. A modified and enriched theory of language policy (and management). Language Policy. https://doi.org/10.1007/s10993-018-9489-z