Guðrún Þórhallsdóttir

„Við getum ekkert sagt“
Sjónarmið, þögn og stóryrði í umræðunni um notkun kynja

Notkun málfræðilegra kynja og orðaforði um fólk hefur líklega verið meira til umræðu hérlendis það sem af er þessari öld en nokkru sinni fyrr. Sá áhugi tengist bæði málvísindaiðkun og jafnréttisumræðu erlendis. Málfræðingar fjalla nú um kyn á ýmsa vegu með hugtökum sem hafa sum hver borist nýlega til landsins og eiga ekki föst íslensk heiti, t.d. orðasafnskyn (eða raunkyn?), vísandi kyn (eða eðliskyn?), líkingarkyn (eða myndhvarfakyn?) og félagslegt kyn. Samræmi málfræðilegra kynja er greint með hugtökunum endurvísun og bendivísun (Höskuldur Þráinsson 2005) eða formlegt og merkingarlegt samræmi að hætti Corbetts (1991 og 2006), þar sem nafnorð geta haft tvö kyn eða tvöfalt kyn eða kallast kynblendingar.

Þessi hugtök og heiti koma yfirleitt lítið við sögu í umræðum um notkun kynja utan hóps málfræðinga, sem vonlegt er, því að ekki hefur verið kafað djúpt í greiningu kynja í málfræðikennslu í skólum. Þegar tekist er á um málfarsnýjungar sem boðaðar eru af jafnréttisástæðum hafa málfræðingar og aðrir þó stundum beitt sams konar röksemdum, sem ég hef kallað hefðarrök, tilvísunarrök, tengslarök og tilfinningarök í fyrirlestrum, kennslu og skrifum á liðnum árum. Þótt röksemdirnar séu þannig margs konar er afstaðan til hins svokallaða „kynhlutlausa málfars“ eða „máls beggja/allra kynja“ þó iðulega sett þannig fram að um tvennt sé að ræða: að vera með eða á móti. Það gefur engan veginn fullnægjandi mynd af ólíkum sjónarmiðum eins og fram kemur í málfarspistli Eiríks Rögnvaldssonar (3.8. 2021).

Í þessum fyrirlestri er ætlunin að ræða um sjónarmið, röksemdir og þátttöku í umræðum um jafnréttismálfarið, beina sjónum einkum að okkur málfræðingunum og ræða málin í málfræðingahópi.

Annars vegar verður rætt um hin ólíku sjónarmið og litið á fleiri fleti á þeim en Eiríkur nefndi í fyrrnefndum pistli, hliðar sem málfræðingar hafa ef til vill forsendur til að meta á annan hátt en þeir sem þekkja minna til á því sviði.

Hins vegar verður fjallað um umræðuna sjálfa með íslenskum og erlendum dæmum frá ólíkum tímum. Hvers vegna er kona kölluð risaeðla ef hún segist líta svo á að hún sé maður? Hvers vegna eru þeir sem nota hvorugkyn í kynhlutlausri merkingu sakaðir um sýndarmennsku og hræsni? Hvers vegna hefur fólk sagt hnípið: „Við getum ekkert sagt“?

Heimildir

  • Corbett, Greville. 1991. Gender. Cambridge: Cambridge University Press.
  • Corbett, Greville. 2006. Agreement. Cambridge: Cambridge University Press.
  • Eiríkur Rögnvaldsson. 3.8. 2021. „Fimm sjónarmið um kynjahalla í tungumálinu.“ Sótt 5.12. 2021 af https://uni.hi.is/eirikur/.
  • Höskuldur Þráinsson. 2005. Íslensk tunga III. Setningar: Handbók um setningafræði. Reykjavík: Almenna bókafélagið.