Vestfirskur einhljóðaframburður

Vestfirskur einhljóðaframburður er fólginn í því að borin eru fram einhljóð (eða grönn sérhljóð) á undan /ng, nk/.

Í þeim framburði eru stofnsérhljóðin eins í orðum eins og vani og vangi, bani og banki, lön og löng, hönum og hönkum til dæmis en í framburði meirihluta landsmanna hljóma orð rituð með ang, ank, öng, önk eins og tvíhljóðin (breiðu sérhljóðin) /á,au/ væru í þeim en ekki einhljóðin /a,ö/. (Þess vegna vildi Halldór Laxness skrifa vángi, bánki, laung, haunk o.s.frv., enda hafði hann hinn almenna tvíhljóðaframburð og ekki vestfirska einhljóðaframburðinn.)

Vestfirski einhljóðaframburðurinn er sjálfsagt upprunalegur en hefur látið verulega undan síga. Hann finnst þó enn um alla Vestfirði (Barðastrandarsýslur, Ísafjarðarsýslur, Strandasýsla) en er sterkastur í Ísafjarðarsýslum.

Í máli sumra Vestfirðinga er einhljóðaframburður á /a/ þó horfinn í þessum samböndum þótt einhljóðaframburður á /ö/ hafi varðveist. Í Strandasýslu er t.d. mjög lítið um einhljóðaframburð á /a/ en þar eimir eftir af einhljóðaframburði á /ö/. Áður hefur einhljóðaframburðurinn sjálfsagt náð til /e,i/ á undan /ng,nk/ en sá framburður virðist nú horfinn.

Útbreiðsla

Framburðardæmi

Málhafi: karl úr Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Málhafi: kona úr Norður-Ísafjarðarsýslu.