Í skaftfellskum einhljóðaframburði er sama stofnsérhljóð í orðmyndunum dagur og daginn, lögur og lögin, flog og flogið, hugur og hugi, sigum og sigið.
Andstæða þessa framburðar er kölluð tvíhljóðaframburður því í þeim framburði verða stofnsérhljóðin í orðum af þessu tagi eins og í-tvíhljóð (tvíhljóð sem enda á í-hljóði eins og æ, au o.s.frv.) þegar beygingarending eða greinir sem hefst á -i fer á eftir stofninum. Þeir sem hafa tvíhljóðaframburð greina þá ekki á milli orðmynda eins og baginn og bæinn, lögin og laugin til dæmis og ekki heldur á milli orðanna svigi og Svíi en það gera þeir sem hafa skaftfellskan einhljóðaframburð.
Eins og nafnið bendir til hefur skaftfellskur einhljóðaframburður einkum tíðkast í Skaftafellssýslum, en hann hefur þó verið talsvert áberandi líka í Vestmannaeyjum. Hann virðist halda sér nokkuð vel.
Útbreiðsla
Framburðardæmi
Málhafi: austur-skaftfellsk kona.
Málhafi: austur-skaftfellskur karl.
Málhafi: vestur-skaftfellsk kona.