Harðmæli – linmæli

Harðmæli nefnist það þegar lokhljóðin /p,t,k/ eru borin fram með svokölluðum fráblæstri á eftir löngu sérhljóði. Þessi framburður getur komið fram í orðum eins og apa, ata, aka, nepja, letra, akrar, vekja.

Í harðmælisframburði hljóma /p,t,k/ í þessum orðum eins og /p,t,k/ gera fremst í orðunum par, tal, kol, kýr o.s.frv. en ekki eins og /b,d,g/ í orðunum bar, dal, gal, gjöf og öðrum slíkum. Framburðurinn dregur nafn sitt af því að /p,t,k/ eru stundum kölluð hörð lokhljóð og /b,d,g/ eru þá sögð vera lin.

Andstæða harðmælis er því kölluð linmæli, en þá eru orð eins og apa, ata, aka, nepja, letra, akrar, vekja borin fram eins og í þeim væru /b,d,g/. Þeir sem hafa harðmælisframburð gera þannig greinarmun á sóti og sódi en þeir sem eru linmæltir gera það ekki. — Harðmæli hefur verið einkennandi fyrir framburð Norðlendinga en nær einnig til Austurlands (nánar tiltekið frá Austur-Húnavatnssýslu til Suður-Múlasýslu) og virðist halda sér nokkuð vel.

Útbreiðsla og horfur
Framburðardæmi

Málhafi: eyfirskur karl.

Málhafi: eyfirsk kona.

Málhafi: skagfirskur karl.

Málhafi: suður-þingeysk kona.