Mállýskur

Framburðarrannsóknir á 20. öld

Meginheimildir um íslenskar framburðarmállýskur eru tvær stórar rannsóknir sem gerðar voru með u.þ.b. 40 ára millibili. Hér er annars vegar um að ræða rannsókn Björns Guðfinnssonar á fimmta áratugnum og hins vegar rannsókn sem Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason gengust fyrir á níunda áratugnum og hefur verið nefnd Rannsókn á íslensku nútímamáli, skammstafað RÍN.

Björn Guðfinnsson

Björn Guðfinnson gekkst fyrir viðamikilli rannsókn á framburði íslenskra skólabarna á aldrinum 12-13 ára. Alls náði rannsókn hans til 6520 barna úr flestum skólahverfum landsins sem þá voru skilgreind.

Rannsóknin fór oftast nær þannig fram að börnin voru látin lesa texta, þar sem fyrir komu orð þar sem reynir á mismunandi framburð eftir mállýskum. Björn tók ekki úrtak úr þeim hópum sem hann rannsakaði heldur náði rannsóknin til meira en 90% af þeim árgangi sem rannsakaður var í skólahverfunum. Niðurstöðurnar úr rannsókn Björns birtust í tveimur áföngum, annars vegar sem Mállýzkur I (1946) og hins vegar að honum látnum sem Mállýzkur II (1964).

RÍN

Rannsókn á íslensku nútímamáli náði til allra aldurshópa í öllum landshlutum; þátttakendur voru alls um 2900 (um 1500 karlar og 1400 konur). Markmiðið var að ná til um 100 einstaklinga í hverri sýslu. Þeir urðu þó talsvert fleiri í stærstu sýslunum, en í fámennari sýslum urðu þátttakendurnir færri.

Stærstu aldurshóparnir voru unglingar á aldrinum 12-20 ára (um 1150) og aldurshópurinn 46-55 ára (um 650) enda var ætlunin að bera framburð þessara aldurshópa saman við framburð þess hóps sem rannsókn Björns Guðfinnssonar tók til (það voru unglingar um tólf ára aldur sem voru á aldrinum 46-55 ára þegar gögnum RÍN var safnað).

Aðferðafræði

Í athugun Björns Guðfinnssonar var framburður yfirleitt metinn þannig að hver einstaklingur var talinn hafa eða hafa ekki tiltekið framburðareinkenni, t.d. harðmæli, og svo voru einstaklingarnir flokkaðir eftir því hvort einkennið var hreint hjá þeim eða blandað (t.d. þannig að einstaklingarnir höfðu harðan eða linan framburð á víxl). Að því búnu voru teknar saman tölur fyrir hvert skólahverfi og hverja sýslu og kaupstað sem sýndu hversu margir höfðu hreinan framburð (á hvorn veginn sem var, harðan eða linan) og hversu margir höfðu blandaðan framburð. Þannig fékkst skýrt yfirlit um dreifingu hvers mállýskueinkennis um landið.

Í RÍN var beitt fjölbreytilegri aðferðum við að fá viðmælendur til að bera fram orðin. Að hluta til var beitt lestraraðferð, á svipaðan hátt og í rannsókn Björns, en auk þess var viðtal við málhafana. Þeir voru meðal annars fengnir til að lýsa myndum sem þeim voru sýndar en á myndunum voru hlutir sem höfðu heiti þar sem forvitnilegs framburðarmunar var að vænta. Lesturinn og viðtölin voru tekin upp á segulband.

Framburður einstaklinga var síðan metinn með því að gefnar voru einkunnir fyrir hvert dæmi í viðtalinu þar sem ,,val“ stóð milli mállýskueinkennis, t.d. þess að hafa harðan framburð eða linan. Þannig fékk maður sem hafði linan framburð á öllum orðum sem hann bar fram einkunnina 100, en sá sem alltaf hafði harðan framburð fékk einkunnina 200. Aðrir fengu einkunnir þar á milli. Síðan voru reiknaðar meðaleinkunnir fyrir stærri hópa, svo sem aldurshópa og kyn, og að sjálfsögðu fyrir afmörkuð svæði.