Iris Edda Nowenstein

Að klóra kött eða klóra ketti? Fallbendingar og merking sagna

Hvernig tengja börn merkingu við orð? Þessari spurningu hefur fylgt rík rannsóknarhefð undanfarna þrjá áratugi, þar sem m.a. hefur verið lögð áhersla á að skýra hvers vegna börnum reynist auðveldara að læra merkingu algengra nafnorða en algengra sagna (sjá m.a. Gentner 1982, Pinker 1984, Gleitman o.fl. 2005, Trueswell o.fl. 2016). Þetta á sérstaklega við nafnorð sem tákna áþreifanlega hluti, en óhlutbundnari merking sagna gerir það að verkum að erfiðara er að reiða sig á efnislegt samhengi (Gillette o.fl. 1999). Út frá þessu hafa fræðimenn lagt til að börn sæki vísbendingar um merkingu sagna í málfræðilegt umhverfi þeirra með svokallaðri snörun á setningagerð (e. syntactic bootstrapping), þar sem gert er ráð fyrir því að röð og fjöldi rökliða feli í sér öflugt tæki til að leiða út ráðandi þætti í merkingu sagna (Landau og Gleitman 1985, Gleitman 1990, Naigles, Gleitman og Gleitman 1993).

Innan þessarar rannsóknarhefðar hefur því verið haldið fram að fjöldi rökliða hafi á algildan hátt vinninginn fram yfir aðrar mögulegar vísbendingar á borð við forskeyti, fallmörkun og aðra þætti sem merktir eru með beygingum og orðmyndum (Lidz, Gleitman og Gleitman 2003). Þessi áhersla á rökliðafjölda hefur sætt gagnrýni fyrir enskuskekkju (Naigles og Swensen 2007), en rannsóknir á setningafræðilegri snörun hafa að mestu leyti snúið að máltöku enskumælandi barna. Í kjölfarið hefur verið sýnt fram á að börn nýta sér aðrar vísbendingar þegar þau tileinka sér merkingu sagna í tungumálum á borð við tyrknesku og japönsku (Göksun o.fl. 2008 og Matsuo o.fl. 2012), þar sem rökliðum er gjarnan sleppt. Börn huga að birtingu rökliðanna í þessum málum líka, en nýta sér fallmörkun einnig sem vísbendingu um merkingu. Snörunin er því víðtækari og nær einnig til fyrirbæra sem eru á mörkum setningagerðar og orðhlutafræði (e. morphosyntactic bootstrapping). En hvaða vísbendingar eru nýttar innan tungumála þar sem bæði rökliðir og sýnilegt fall eru skyldubundinn hluti setningar?

Íslenska er slíkt tungumál og þ.a.l. kjörinn vettvangur til frekari athugunar á eiginleikum snörunar á fallmörkun og setningagerð. Rökliðagerð birtist með svipuðum hætti og í ensku en um leið er ríkulegt fallmörkunarkerfi til staðar líkt og í tyrknesku. Tengsl falls og merkingar eru auk þess vel rannsakað fyrirbæri innan íslensku (sjá t.d. Jóhannes Gísla Jónsson 1997-1998, Maling 2002 og Svenonius 2002), en t.a.m. hefur verið bent á að fall getur verið eini merkingaraðgreinandi þátturinn þegar kemur að merkingu sagna. Í (1a) greinir fall á milli þolanda- og njótandamerkingar, en í (1b) skiptir fall máli þegar kemur að því hvort frumlagið sé þema eða skynjandi.

(1) a. Hún klóraði köttinn/kettinum
b. Skrímslið/skrímslinu er kalt

Ef slík dæmi eru tekin til greina, til viðbótar við mynstur á borð við það að gerendur séu undantekningalaust í nefnifalli í grundvallarorðaröð, virðist nauðsynlegt að nýta fall sem vísbendingu um merkingu sagna í íslensku. Í erindinu verða kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar á því hvernig börn og fullorðnir nýta sér fall og fjölda rökliða til að áætla merkingu nýrra sagna í íslensku. Gögnunum er safnað innan verkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis (Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson, 2016-2019).