Ingunn Hreinberg Indriðadóttir og Þórhallur Eyþórsson

„Að gefnu tilefni. “ Um sjálfstæðan forsetningarlið með lýsingarhætti

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um setningagerð í íslensku sem kalla má sjálfstæðan forsetningarlið með lýsingarhætti (SFL). Í SFL tekur forsetningin með sér nafnlið í aukafalli og lýsingarhátt nútíðar eða þátíðar. Lýsingarháttur þátíðar sambeygist nafnliðnum. Í nútímamáli (1) koma eingöngu þágufallsliðir fyrir í þessari setningagerð en að fornu (2) eru líka dæmi um þolfall.

(1)

  1. Bjarni rændi bankann að öllum sjáandi.
  2. Komdu aftur að viku liðinni.
  3. Stjórnin vill taka fram að gefnu tilefni.

(2)

  1. að upprennandi sólu (Hárbarðsljóð 58)
  2. að upprunninni sólu (Ísl. hómilíubók 82)
  3. að liðinn fylki (Helga kviða Hörvarðssonar 42)

Þessi setningagerð hefur hingað til hlotið litla athygli í umfjöllum um íslenskt nútímamál. Í fyrirlestrinum verður sett fram stutt sögulegt yfirlit um SFL og gerð grein fyrir muninum á birtingarmynd hennar í forníslensku og í nútímamáli. Enn fremur verða sýnd dæmi um sambærilega orðskipun í öðrum málum, bæði í germönskum fornmálum (m.a. gotnesku) og í fjarskyldari málum (m.a. latínu), þar sem hún er ýmist með eða án forsetningar. Tekið skal fram að norræna setningagerðin er ekki orðin til fyrir áhrif úr öðrum málum þótt notkun hennar til forna hafi hugsanlega aukist fyrir erlend áhrif (Þórhallur Eyþórsson 1995, 1997). Megináherslan hér er á lýsingu og greiningu á SFL í íslensku nútímamáli, setningafræðilegum einkennum hennar, virkni og útbreiðslu. Fyrst og fremst er könnunin byggð á víðtækri netkönnun.

Á meðal þeirra atriða sem voru könnuð var setningafræðilegt hlutverk setningagerðarinnar, fall nafnliða og lýsingarhátta og munur á dreifingu lýsingarháttar nútíðar og lýsingarháttar þátíðar; einnig var athugað hvaða sagnir geta komið fyrir í SFL, mynd þeirra (germynd eða þolmynd), málfræðilegt gildi (áhrifssagnir eða áhrifslausar) og loks möguleg orðaraðarmynstur (sögn–nafnliður/nafnliður–sögn).

Helstu niðurstöður úr rannsókninni eru dregnar saman hér:

  • SFL hefur setningafræðilegt hlutverk aukasetningar („aukasetningarígildi“) þar sem nafnliður í aukafalli samsvarar frumlagi setningar með persónubeygðri sögn; lýsingarhátturinn samsvarar persónubeygðri umsögn.
  • Forsetningin er fallstjórnandi (en ekki aukatenging).
  • Staðfest var að eingöngu þágufall kemur fyrir í SFL í nútímamáli.
  • Sagnir í SFL geta ýmist verið í germynd eða þolmynd.
  • Ákveðnar áhrifslausar sagnir (einkum „óakkúsatífar“ sagnir) eru algengar í setningagerðinni (en fjöldi þeirra sagna sem koma fyrir er takmarkaður).
  • Áhrifssagnir í germynd geta eingöngu komið fyrir ef þær eru án andlags (og eru þar með áhrifslausar).
  • Áhrifssagnir í þolmynd eru algengar í SFL en andlag samsvarandi germyndarsetningar gegnir þá hlutverki frumlags.
  • Talsverður breytileiki er í orðaröð en þó eru þar ákveðnir fastar sem ekki er vikið frá.

Síðast en ekki síst er þess að geta að þótt föst orðasambönd séu tíð í þessi setningagerð er ferlið enn virkt, eins og sjá má af nýjum sagnasamböndum sem koma fyrir. Sjálfstæður forsetningarliður með lýsingarhætti er tiltölulega mikið notaður í nútímamáli, ekki aðeins í formlegu málsniði heldur líka í óformlegum málaðstæðum.