Gísli Rúnar Harðarson

Formgerðarhömlur og leiðréttingar í úrvinnslu samsettra orða í íslensku

Í þessum fyrirlestri verða ræddar niðurstöður tveggja tilrauna sem ætlað var að kanna mögulegan úrvinnslukostnað brota á formgerðarhömlum samsettra orða í íslensku. Niðurstöður þessara tilrauna bendir til þess að þó svo að mismunandi formgerðir samsettra orða hafi áhrif á úrvinnslu setninga virðast brot á formgerðarhömlum samsettra orða ekki hafa áhrif framyfir önnur formgerðarleg atriði. Áhrifaleysi þessara brota er mögulega vegna þess hversu auðleiðréttanleg þau eru.

Formgerðarhömlur: Formgerð samsettra orða í íslensku er að ýmsu leiti háð því hvort forliður sé beygður eða óbeygður (Baldur Jónsson 1984, 1987; Eiríkur Rögnvaldsson 1990:35; Gísli Rúnar Harðarson 2016, 2017). Í þriggja liða samsetningum birtast þessar hömlur á eftirfarandi máta: Ef beygður liður fer á undan óbeygðum er einungis samsettur viðliður mögulegur, (1). Ef beygður liður fer á eftir óbeygðum er einungis samsettur forliður mögulegur, (2). Ef báðir liðir eru beygðir eða óbeygðir eru báðar formgerðir mögulegar, (3–4).

(1)     a.  *   [[barn-a-fjall-]vagn]                                 b.      [barn-a-[fjall-vagn]]
vagn sem hentar í ferðir upp á lítið fjall         vagn sem hentar í fjallaferðir fyrir börn

(2)     a.       [[barn-fjall-a-]vagn]                                 b.  *   [barn-[fjall-a-vagn]]

(3)     a.       [[barn-fjall-]vagn]                                    b.      [barn-[fjall-vagn]]

(4)     a.       [[barn-a-fjall-a-]vagn]                              b.      [barn-a-[fjall-a-vagn]]

Í greiningu GRH (2016, 2017) voru þessar hömlur álitnar stafa af því að stærð forliða ráði því hvar þeir hengjast í formgerð hauss samsetningarinnar, þ.e. beygðir forliðir innihalda aukna formgerð fram yfir óbeygða, þ.e. beygingarsvið, og hengjast því ofar en óbeygðir, þ.e. við beygingarsvið hauss samsetningarinnar. Fenger & Harðarson (2018) hafa svo fundið álíka hömlur í Hollensku í eftir því hvort tengimyndön eru til staðar eða ekki.

Tilraunir: Gerðar voru tvær tilraunir þar sem greindur var leshraði (e. Self Paced Reading Task). Á undan hverri setningu birtist inngangssetning sem ætlað var að knýja fram túlkun sem samræmdist ýmist samsettum forlið eða samsettum viðlið. Í fyrri tilrauninni birtust samsett orð lið fyrir lið en í seinni tilrauninni birtust þau í heild sinni. Niðurstöður benda til þess að formgerð samsetninga og forliða hafi áhrif á leshraða en brot á formgerðarhömlum hafi ekki sýnileg áhrif.

Leiðréttingar: Rannsóknir á máli málstolssjúklinga og heilbrigðra einstaklinga benda til þess að leiðréttingar séu hluti af úrvinnslu setninga (sjá t.d. Whitaker 1976; Crain & Fodor 1987). Þegar kemur að áhrifum leiðréttinga skipta ýmis merkingarfræðileg, formgerðarleg og hljóðkerfisfræðileg atriði máli upp á hversu mikil áhrifin verða eða jafnvel hvort þau séu sjáanleg yfir höfuð og því minna sem þarf að leiðrétta, því minni eru áhrifin (sjá t.d. Fodor & Inoue 1994; Ferreira & Henderson 1998; Frazier 2008; Duffield et al. 2009 o.fl.). Leiðréttingar á brotum á formgerðarhömlum samsettra orða þá einungis krefjast ýmist eyðingar beygingarsviðs beygða forliðarins eða viðbótar beygingarsviðs á þeim óbeygða. Þessi leiðrétting getur átt sér stað um leið og samsetningin hefur birst í heild sinni og mun því teljast ódýr hvað varðar úrvinnslukostnað og er því líklegt að hún hafi ekki sýnileg áhrif. Í framhaldinu verður athyglinni því beint að því hvernig megi komast hjá áhrifum leiðréttinga.

Valdar heimildir

  • Crain, Stephen & Janet Dean Fodor. 1987. Sentence matching and overgeneration. Cognition 26(2). 123–169
  • Eiríkur Rögnvaldsson. 1990. Íslensk orðhlutafræði. Reykjavík: Málvísindastofnun Háskóla Íslands.
  • Frazier, Lyn. 2008. Processing Ellipsis: A Processing Solution to the Undergeneration Problem? Proceedings of WCCFL. 21–32.
  • Gísli Rúnar Harðarson. 2017. Cycling Through Grammar: On Compounds, Noun Phrases and Domains. Doktorsritgerð við Connecticutháskóla, Storrs, CT.