Einar Freyr Sigurðsson

Um beygingarþætti óbeygjanlegra lýsingarorða

Meirihluti lýsingarorða í íslensku beygist í kyni, tölu og falli. Óbeygjanleg lýsingarorð sýna aftur á móti engin merki um slíka beygingarþætti. Þessum lýsingarorðum er stundum lýst þannig að þau séu eins í öllum föllum, kynjum og báðum tölum. Það þýðir með öðrum orðum að þau hafi þessa beygingarþætti. Í fyrirlestrinum verður því aftur á móti haldið fram að óbeygjanleg lýsingarorð beygist ekki vegna þess að þau hafi enga af áðurnefndum beygingarþáttum. Rökin eru fengin frá samspili lýsingarorða sem fylgiumsagna (e. secondary predicates) og ópersónulegrar þolmyndar en það var kannað í rannsóknarverkefninu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ (https://molicodilaco.hi.is/) meðal 46 fullorðinna málhafa árið 2018. Hluti niðurstaðnanna er sýndur í (1)–(2).

Mjög eða frekar eðlileg Hvorki né Mjög eða frekar óeðlileg
(1) Það var fylgst gáttaður með framgangi málsins. 0 (0%) 0 (0%) 46 (100%)
(2) Á þessum bar er aldrei dansað ódrukkinn. 16 (36%) 4 (9%) 25 (56%)

Eins og sést var lítið um að málhafar teldu lýsingarorðsfylgiumsagnir eðlilegar í ópersónulegri þolmynd. Það var viðbúið þar sem almennt hefur verið talið að frumlag, sýnilegt eða ósýnilegt, sé forsenda þess að nota megi fylgiumsagnir í ópersónulegri þolmynd (sbr. Sigríður Sigurjónsdóttir og Maling 2001, Jóhannes Gísli Jónsson 2009, Halldór Ármann Sigurðsson 2011). Ef ekkert frumlag er í setningunni geta beygð lýsingarorð á borð við gáttaður og ódrukkinn ekki samræmst neinum nafnlið og fá þar af leiðandi ekki gildi fyrir beygingarþætti sína.

Ef óbeygjanleg lýsingarorð hafa beygingarþætti (kyn, tölu og fall) er við því að búast að málhafar telji notkun þeirra í ópersónulegri þolmynd almennt ótæka. Svo er hins vegar ekki.

Mjög eða frekar eðlileg Hvorki né Mjög eða frekar óeðlileg
(3) Það var fylgst undrandi með framgangi málsins. 23 (50%) 3 (7%) 20 (43%)
(4) Á þessum bar er aldrei dansað edrú. 31 (69%) 6 (13%) 8 (18%)

 

Setningar (1) og (3) annars vegar og (2) og (4) hins vegar mynda lágmarkspör. Í (1)–(2) eru beygð lýsingarorð en óbeygjanleg í (3)–(4). Óbeygjanlegu lýsingarorðin undrandi og edrú eru mun frekar samþykkt sem fylgiumsagnir í ópersónulegri þolmynd en beygðu lýsingarorðin gáttaður og ódrukkinn. Ástæðan getur varla verið sú að í (3)–(4) sé ósýnilegt frumlag en ekki í (1)–(2) heldur virðist þetta vera til marks um að lýsingarorð hafi einfaldlega ekki beygingarþætti.

Þessi niðurstaða hefur víðtæk áhrif. Í þýskri ópersónulegri þolmynd er tækt að nota lýsingarorð sem fylgiumsagnir en þá eru þau einmitt óbeygð, sjá (5). Enska hefur ekki ópersónulega þolmynd en þó geta margir málhafar notað óbeygjanlegar lýsingarorðsfylgiumsagnir í hefðbundinni þolmynd sem vísa til geranda, sjá (6).

(5)        Auf dem Land wird auch betrunken gefahren.  (Müller 2008)

(6)        The book was written drunk.                           (Collins 2005:101)

Í fyrirlestrinum verður því haldið fram að auk óbeygjanlegra lýsingarorða í íslensku hafi lýsingarorð í þýsku, þegar þau standa óbeygð, og í ensku ekki beygingarþætti.