Jóhannes Gísli Jónsson og Iðunn Kristínardóttir

Forsetningarliður sem viðtakandi í tveggja andlaga sögnum

Í tungumálum eins og ensku koma tveggja andlaga sagnir fyrir í tveimur formgerðum: (a) með tveimur nafnliðum þar sem sá fyrri táknar viðtakandann (þann sem fær hlutinn) en sá seinni táknar þemað (það sem skiptir um eiganda), eða (b) með nafnlið + forsetningarlið þar sem nafnliðurinn táknar þemað en forsetningarliðurinn táknar viðtakandann. Fyrri möguleikinn er sýndur í (1a) en sá seinni í (1b):

(1a)  I gave [John] [the book] (NL-NL)
(1b)  I have [the book] [to John] (NL-FL)

Í íslensku virðist seinni formgerðin algjörlega útilokuð með gefa, sbr. dæmi (2b), og reyndar aðeins möguleg með tveggja andlaga sögnum sem tákna hreyfingu (Ég sendi bókina til Jóns).

(2a)  Ég gaf [Jóni] [bókina]
(2b)  *Ég gaf [bókina] [til Jóns]

Á það hefur þó verið bent að til-formgerðin er möguleg ef viðtakandinn er félag, fyrirtæki eða stofnun eða einhver óákveðinn hópur fólks:

(3a) Ég gaf bókasafnið til Háskóla Íslands (Höskuldur Þráinsson 2005:294)
(3b) Jón gaf eigur sínar til fátækra (Kjartan G. Ottósson 1991:78)

Rannsókn Iðunnar Kristínardóttur (2021), sem byggist á leitum í Risamálheildinni, styður þetta. Iðunn sýnir líka fram á að það er munur á einstökum merkingarflokkum tveggja andlaga sagna en því meiri hreyfing sem felst í sögninni því algengari er til-formgerðin með henni. Almennt má því segja að eftir því sem það er auðveldara að túlka andlag forsetningarinnar til sem staðsetningu þeim mun betra er að nota til-formgerðina.

Frekari staðfestingu á þessu má finna í nýlegu dómaprófi á netinu sem lagt var fyrir sem hluti af stóru rannsóknarverkefni um tveggja andlaga sagnir í íslensku og færeysku. Þar voru þátttakendur beðnir um að meta dæmi á skalanum 1-7, bæði með tveimur andlögum og til-formgerðinni. Tveggja andlaga formgerðin fékk í flestum tilvikum betri dóma en til-formgerðin en eins og vænta mátti var talsverður munur á einstökum sögnum, jafnvel innan sama merkingarflokks. Til dæmis má nefna að selja (5,57) fékk hæstu meðaleinkunn gjafasagna í til-formgerðinni og var þar fyrir ofan t.d. lána (4,74) og borga (4,8). Meðal þeirra sex sagna sem kannaðar voru og tákna framtíðareign voru úthluta (5,8) og veita (5,56) efstar, þá komu ánafna (4,7) og skulda (4,4) en neðstar voru bjóða (3,35) og lofa (3,02). Eins og nánar verður rakið í fyrirlestrinum má útskýra þennan mun út frá svipuðum hugmyndum og fram koma hjá Iðunni Kristínardóttur (2021).

Heimildir

  • Höskuldur Þráinsson. 2005. Setningar: Handbók um setningafræði. Meðhöfundar: Eiríkur Rögnvaldsson, Jóhannes Gísli Jónsson, Sigríður Magnúsdóttir, Sigríður Sigurjónsdóttir og Þórunn Blöndal. Íslensk tunga III. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
  • Iðunn Kristínardóttir. 2021. … að banna tóbak til reyklausra. Um til-forsetningarlið í stað óbeins andlags í íslensku. Óbirt BA-ritgerð, Háskóla Íslands.
  • Kjartan G. Ottósson. 1991. Icelandic double objects as small clauses. Working Papers in Scandinavian Syntax 48:77-97.