Iris Edda Nowenstein, Anton Karl Ingason og Joel C. Wallenberg

Skilyrtur breytileiki: Að erfa þágufallshneigð

Innan félagsmálvísinda hefur á undanförnum árum myndast rík hefð fyrir rannsóknum á því hvernig börn tileinka sér breytileika í málumhverfi sínu. Samband tíðni í ílaginu og máltöku er flókið (Goodman, Dale & Li 2008) en almennt er gert ráð fyrir því að börn læri að miklu leyti einkennin sem birtast í máli foreldranna (sjá yfirlit Johnson & White 2020). Þegar kafað er dýpra kemur þó í ljós að málið er ekki svo einfalt: Ýmsar rannsóknir sýna að börn, ólíkt fullorðnum, regluvæði (e. regularize) breytileika sem þau heyra, einfaldi kerfi og eyði í raun ósamræmi (Hudson Kam & Newport 2005). Þetta á þó ekki endilega við um breytileika sem er skilyrtur þar sem (eldri) börn virðast þá geta tileinkað sér það kerfi sem er til staðar í málumhverfinu (Sneller & Newport 2019). Til viðbótar virðast viðbrögð barna við breytileika í málumhverfinu að einhverju leyti fara eftir breytunni sjálfri, tíðni hennar og eðli skilyrðingarinnar (Smith, Durham & Fortune 2007 og 2009, Hendricks, Miller & Jackson 2018). Þrátt fyrir umfangsmiklar rannsóknir á íslenskum tilbrigðum hefur lítið verið fjallað um tileinkun þeirra. Í fyrirlestrinum verða kynntar niðurstöður athugunar á þágufallshneigð hjá 101 barni á aldrinum 3-13 ára og forráðamönnum þeirra. Lögð er áhersla á tíðni þágufallshneigðar og persónu- og samfallsáhrifum þar sem gert er ráð fyrir meira þágufalli í þriðju persónu (1a) en fyrstu persónu (1b) og þegar samfall er í nefnifalli og þolfalli (2). Niðurstöðurnar sýna að börn fylgja ekki tíðni breytileikans hjá foreldrum sínum en tileinka sér þá kerfislegu skilyrðingu sem er til staðar í máli fullorðinna.

(1a) Hana/Henni langar í kaffi → meiri þágufallshneigð
(1b) Mig/Mér langar í kaffi → minni þágufallshneigð

(2)Gagnanna sem liggja til grundvallar var aflað innan verkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis (verkefnisstjórar: Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson). Notast var við dómapróf hjá fullorðnum og val á milli kosta hjá börnunum. Hluti af tilgangi rannsóknarinnar var að leggja mat á áreiðanleika þessara aðferða í samhengi félagsmálvísindalegra máltökufræða þar sem gagnasafnsrannsóknir tíðkast frekar en henta illa þegar kemur að lágtíðnibreytum. Dómum og vali var umbreytt í hlutfall þágufallshneigðar og tölfræðileg úrvinnsla var fólgin í því að kanna mynstur hópa á milli en einnig innan paranna (barn – forsjáraðili). Tölfræðileg úrvinnsla sýndi að tíðni þágufallshneigðar hjá foreldrum spáði ekki fyrir um tíðnina hjá börnunum, en þó kom fram samsvörun í skilyrðingu þar sem persónu- og samfallsáhrif koma fyrir hjá báðum hópum. Þessi samsvörun kom einnig fram innan paranna. Þetta er í fyrsta skipti sem sýnt er fram á samfallsáhrif í rannsókn á þágufallshneigð en athyglisvert er að börn virðast tileinka sér það mynstur seinna en persónuáhrifin. Niðurstöðurnar ríma við erlendar rannsóknir á svipuðum fyrirbærum þar sem ekki kemur endilega samsvörun í tíðni breytileikans en börn eru þó fær um að tileinka sér breytileikamynstur án þess að alhæfa. Í þessu er fólgin innsýn í hlutverk máltökuferlisins þegar kemur að framgangi málbreytinga og mögulega stöðugum breytileika (sjá einnig Wallenberg 2019).

Heimildir

  • Hendricks, A. E., Miller, K., og Jackson, C. N. 2018. Regularizing unpredictable variation: Evidence from a natural language setting. Language Learning and Development, 14(1), 42-60.
  • Hudson Kam, C. L., og Newport, E. L. 2005. Regularizing unpredictable variation: The roles of adult and child learners in language formation and change. Language learning and development, 1(2), 151-195.
  • Johnson, E. K., og White, K. S. 2020. Developmental sociolinguistics: Children’s acquisition of language variation. Wiley Interdisciplinary Reviews: Cognitive Science, 11(1), e1515.
  • Smith, J., Durham, M., og Fortune, L. 2007. “Mam, my trousers is fa’in doon!”: Community, caregiver, and child in the acquisition of variation in a Scottish dialect. Language Variation and Change, 19(1), 63-99.
  • Smith, J., Durham, M., og Fortune, L. 2009. Universal and dialect-specific pathways of acquisition: Caregivers, children, and t/d deletion. Language Variation and Change, 21(1), 69-95.
  • Sneller, B. & Newport, E. 2019. The Acquisition of Phonological Variation: Evidence from artificial language learning. Fyrirlestur á BUCLD ráðstefnunni.
  • Wallenberg, J. C. 2019. A variational theory of specialization in acquisition and diachrony. Í Breitbarth, A., Bouzouita, M., Danckaert, L. & Farasyn, M (ritstj..): The Determinants of Diachronic Stability, bls. 245-263. John Benjamins: Amsterdam.