Gísli Rúnar Harðarson

Umröðun andlaga

Í þessu erindi verða kynntar niðurstöður á könnun á umröðun sem lögð var fyrir í desember 2021, og stendur enn yfir þegar þetta er skrifað. Þessi könnun var gerð í tengslum við verkefnið Tveggja andlaga sagnir í íslensku og færeysku. Niðurstöðurnar verða svo ræddar og settar í samhengi við fyrri lýsingar á þessu fyrirbæri.

Umröðun: Sjálfgefin röð andlaga tveggja andlaga sagna er sú sem sýnd er í (1a) hér að neðan, þ.e. að óbeint andlag fer á undan beinu andlagi. Með sumum sögnum er hins vegar mögulegt að víxla andlögunum og getur beint andlag farið á undan óbeinu (Eiríkur Rögnvaldsson 1990, o.fl.), eins og sýnt er í (1b).

(1) Höskuldur Þráinsson (2007:132)
a. Þau sýndu foreldrunum krakkana.
b. Þau sýndu krakkana foreldrunum.

Umröðun andlaga virðist vera ýmsum skilyrðum háð (sjá t.d. Kjartan Ottósson 1991 og Collins og Þráinsson 1996). Þar ber helst að nefna að annars vegar að möguleiki á umröðun virðist vera bundin við sagnir sem taka óbeint andlag í þágufalli og beint andlag í þolfalli. Í öðru lagi virðist óbeina andlagið verða að vera brennidepill (e. focus). Umröðun virðist hins vegar vera frekar sjaldgæf (sjá t.d. Bolla Magnússon 2019) og dæmdu málhafar í könnun Nicole Dehé (2004) umröðun alla jafnan óeðlilega undir þeim skilyrðum sem þar voru notuð. Í könnun Dehé voru bæði andlögin í prófsetningum fullir nafnliðir og var beina andlagið ákveðið. Fornöfn og óákveðnir nafnliðir voru ekki prófaðir, en í málheildarrannsóknum sem gerðar hafa verið í tengslum við verkefnið er algengt að beina andlagið sé fornafn og óbeina andlagið sé óákveðið.

Hönnun: Könnunin samanstóð af 50 setningum og þar af 18 prófsetningum. Eitt markmiða könnunarinnar er að athuga hvort umröðun sé raunverulega bundin við ákveðið fallmynstur og höfðu því 9 prófsetningar fallmynstrið ÓB-þgf. og BA-þf. (gefa-sagnir) og 9 ÓB-þgf og BA-þgf. (skila-sagnir) og var ein sögn, úthluta, í báðum flokkum. Einnig var kannaður munur á sögnum og innihélt hver flokkur 5 mismunandi sagnir. Allar prófsetningarnar höfðu sömu uppbyggingu, þ.e. tvær samtengdar setningar þar sem fyrri setningin gaf viðeigandi samhengi og seinni setningin innihélt umröðun.

(2) Sigga var loksins orðin ánægð með styttuna og þorði þess vegna að sýna hana fólki.

Beina andlagið var í öllum tilvikum áherslulaust fornafn og vísaði til einhvers í fyrri setningunni og óbeina andlagið var í öllum tilvikum tveggja atkvæða langt óákveðið nafnorð sem táknaði nýjar upplýsingar. Setningarnar voru svo lesnar upp og þátttakendur mátu setningarnar eftir að hafa heyrt upplesturinn á skalanum 1(algjörlega ótækt)– 7(fullkomlega eðlilegt). Tvær forkannanir voru gerðar, ein skrifleg og ein þar sem hlustað var á setningarnar.

Forniðurstöður: Yfirhöfuð virðist umröðun ganga með gefa-sögnum (meðaldómar yfir 4). Munur var á sögnum í þessum flokki og hlaut sögnin afhenda hæstu einkunn (5,2) en lægsta einkunn fékk úthluta (4,15). Einnig var breytileiki meðal skila-sagna en þar hlaut úthluta 4,55 að meðaltali. Aðrar sagnir fengu þó engar lægri dóma en 3 að meðaltali. Töluverð skörun er á hæstu einkunum skila-sagna og lægstu einkunnum gefa-sagna. Þessar niðurstöður virðast benda til þess að fallmynstur er ekki ráðandi þáttur þegar kemur að möguleika á umröðun, heldur ráði sögnin sjálf ef til vill meiru um það.