Árni Davíð Magnússon, Halldóra Jónsdóttir og Steinþór Steingrímsson

Orðabók Blöndals í stafrænum heimi

Stafræn gerð Íslensk-danskrar orðabókar eftir Sigfús Blöndal var opnuð formlega á vefnum í febrúar 2021 að undangenginni 5 ára vinnu á orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Verkefnið var unnið að frumkvæði Íslensks-dansks orðabókarsjóðs sem fjármagnaði vinnu þeirra stúdenta sem að verkinu unnu.

Orðabókin, sem er lykilverk í íslenskri orðabókasögu, kom út á árunum 1920–1924 og er enn stærsta íslenska orðabókin sem hefur verið unnin til þessa. Orðabókin er 1052 blaðsíður að stærð með tveimur breiðum dálkum en auk þess kom út viðbótarbindi árið 1963 sem er 200 blaðsíður. Uppflettiorð eru samtals 154.000.

Ferlinu við stafvæðingu orðabókarinnar verður lýst, allt frá því hún var ljósmynduð á Landsbókasafninu og þar til hún var opnuð á vef. Gerð verður grein fyrir þeim ákvörðunum sem voru teknar og þeim hindrunum sem þurfti að ráða fram úr, en eins langt var gengið í greiningu á efninu og mögulegt er. Hver og ein orðabókarfærsla var mörkuð eftir sviðum, sem gefur kost á því að leita í orðabókinni með nýjum hætti, t.d. eftir orðflokki, hvort notkun á orðinu sé svæðisbundin, eða eftir dönsku þýðingunum, svo eitthvað sé nefnt. Þetta býður líka upp á nýja möguleika í rannsóknum á efni hennar, sem ekki var fyrir hendi áður.

Frá árinu 2016 störfuðu samanlagt sjö stúdentar að stafrænni útgáfu Blöndalsorðabókar. Vinna stúdenta við Blöndalsorðabók var umfangsmikil, tímafrek og fjölbreytt. Fyrst þurfti að skilgreina hin fjölmörgu svið Orðabókarinnar til þess að hægt væri að búa til samræmt, stafrænt viðmót til að vinna eftir. Síðan var mikilvægt að orðabókarstarfsmenn sjálfir samræmdu sína vinnu eins og kostur var og kom sér þá vel að starfshópurinn var einstaklega samheldinn.

Margt kom starfsmönnum á óvart við þessa vinnu en ekki síst frjálslyndi Orðabókarinnar og metnaður; mállýskudæmum var safnað hvaðanæva að, heimildarmenn eru fjölskrúðugir og nýyrði sömuleiðis. Allur þessi fróðleikur er nú aðgengilegur og leitarbær um ókomin ár á sérstakri heimasíðu. Heimasíðan er í fyrsta lagi hugsuð fyrir uppflettingar í orðabókinni en einnig sem vettvangur fyrir fróðleik um höfundana, orðabókina og umfjöllun um hana. Formálinn birtist þar í íslenskri þýðingu og svo allar ellefu greinarnar úr þemahefti Orðs og tungu frá árinu 1997 um orðabókina ásamt Andvaragrein Guðrúnar Kvaran um Björgu, Andans kona og orðabókarpúl, frá árinu 2002. Ekki er útilokað að með tímanum muni efni bætast við heimasíðuna.