Flámæli

Megineinkenni flámælis var það að greinarmunur sérhljóðanna /i,e/ annars vegar og /u,ö/ hins vegar varð óskýr. Þetta á þá til dæmis við um orðapör eins og sykur og sekur, skyr og sker, pili  og peli annars vegar og svo skutur og skötur, flugu og flögu, stuð og stöð.

Líklega hefur verið algengast að /i/ líktist /e/ og /u/ líktist /ö/, en þó hefur líklega einnig verið til í dæminu að /e/ færðist nær /i/ og /ö/ færðist í átt til /u/. Þetta gat valdið erfiðleikum í stafsetningu og kannski hefur það verið meginástæða þess að margir kennarar höfðu horn í síðu þessa framburðar.

Þessi framburður var áður nokkuð algengur á Austurlandi (frá Norður-Múlasýslu til Austur-Skaftafellssýslu), í Húnavatnssýslum og á Suðvesturlandi, m.a. í Reykjavík. Hann er nú nánast horfinn. Eitthvað er þó um það að langt /e/ fái á sig i-blæ og langt /ö/ fái u-keim og þess vegna hefur sá framburður stundum verið nefndur nýja flámælið.

Horfurit

Framburðardæmi

Svo vill til að allir málhafarnir hér að neðan eru austur-skaftfellskir karlar en eins og fram kemur hér að ofan tíðkaðist flámæli víðar á landinu.